149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það hefur staðið yfir leit, eins og hv. þingmaður veit eflaust, að fyrirvörunum af hálfu þingmanna Miðflokksins og þeir hafa ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit. Málið snýst hins vegar kannski ekki um það heldur hvort fyrirvararnir eins og þeir eru settir fram í þessu máli séu, eins og maður segir, pappírsins virði, vegna þess að líkt og hv. þingmaður fór svo ágætlega yfir eru lög ESB eða EES æðri lögum Íslands í þessu tilfelli og kann að vera að það sé ekki einu sinni nóg, eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði, að vera með belti og axlabönd, í smekkbuxum og nýjum skóm og með álímdan hártopp til að vinna bug á þessu.

Því spyr ég hv. þingmann: Í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið undanfarið um fyrirvarana og hvernig þeir eru settir og hvernig þeir eiga að virka, telur hv. þingmaður að þessir fyrirvarar muni virka eins og til er ætlast? Telur hv. þingmaður að setning fyrirvara í máli af þessari stærðargráðu sé virkilega til þess fallin að tryggja þá hagsmuni sem við viljum tryggja? Eða eru þessir fyrirvarar fyrst og fremst svona reyktjald, ef við getum orðað það svo, þetta er vond þýðing á ensku orði, en þingmálið er íslenska, til að slá ryki í augu þeirra þingmanna sem hafa látið tilleiðast að styðja málið nauðugir viljugir og til að slá ryki í augu almennings?