149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður byggi kenningu sína um hvar fyrirvarann kunni að vera að finna á nýjustu upplýsingum úr leitinni að fyrirvaranum. En sé þessi kenning rétt, þ.e. að fyrirvarinn eigi eftir að verða til á skrifstofu ráðherra, vaknar önnur risastór spurning og hún er þessi: Hvers vegna er fyrirvarinn ekki sýndur áður en málið skal afgreiðast frá þinginu? Sé sú kenning rétt að fyrirvarinn muni verða til á skrifborði ráðherra, því þá ekki að sýna hvernig hann muni líta út?

Þetta er allt á sömu bókina lært. Það er ýmist litið fram hjá málum eða stundum hreinlega eins og það sé verið að fela grundvallaratriði tengd þessari innleiðingu.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns um skort á lögfræðilegri álitsgerð: Já, mér finnst blasa við að ætli menn að reyna þessa leið þurfi að meta leiðina sjálfa, þ.e. skrifa álitsgerð um leiðina sem ríkisstjórnin boðar. Til að hægt sé að skrifa slíka álitsgerð þurfa menn væntanlega að fá að sjá fyrirvara. Það er leyndó enn sem komið er, sé hann yfirleitt til eða væntanlegur. Allt ber þetta að sama brunni, það er leynd yfir því hvað verið er að gera og stjórnvöld, ráðherrar meira að segja, virðast ekki alveg vera með það á hreinu sjálf í hverju þessi vegferð þeirra felst.