149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Skemmst er frá því að segja að ég fór í ræðu fyrir nokkru, kannski laust fyrir hádegi, yfir 6–8 þætti sem ég tel mjög mikilvæga í þessu sem er ósvarað. Það er ekki okkar að svara þeim spurningum sem við berum fram, eins og mátti skilja á máli þingmannsins. Við höfum hins vegar bent á það að svör er ekki að finna í gögnum málsins eða í máli ráðherra þegar hann til að mynda kom hér sl. föstudag.

Svo ég nefni nokkur dæmi er lagalegi fyrirvarinn á reiki. Að honum hefur staðið yfir leit og hann hefur kannski ekki fundist til hlítar eða það er a.m.k. ekki öruggt. Það er heldur ekki öruggt hvaða afl væri að baki honum gagnvart þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við öxlum með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og felur í sér að okkur ber að innleiða einstakar gerðir í þessum orkupakka.

Annað mál er að ekki hafa fengist viðhlítandi svör við því að okkar dómi af hverju ekki er hægt að leita eftir undanþágu frá til að mynda reglugerð 713/2009 í ljósi þess að það er engin raforkutenging á milli okkar og Evrópu, rétt eins og okkur var veitt undanþága vegna sérstöðu okkar varðandi jarðgas. Við erum með undanþágu gagnvart því.

Við höfum nefnt hérna fjölmarga aðra þætti. Vegna þess hve lítinn tíma ég hef nefni ég að við verðum að vita hvað er í orkupakka fjögur og hvernig hann tengist orkupakka þrjú. Við þurfum að draga lærdóm af norskri reynslu. Við þurfum að átta okkur á þeim fréttum sem bárust í gær um áform um að leggja hérna sæstreng (Forseti hringir.) og annað af þessu tagi. Þetta eru fjölmargar mikilvægar spurningar, herra forseti.