149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:15]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Áðan var vitnað í grein sem er alveg nýbökuð, frá Haraldi Ólafssyni og var mjög upplýsandi að lesa þá grein. Mig langar að vitna í grein frá sama manni sem er reyndar orðin sex mánaða gömul en ég held að hún standist tímans tönn. Það má segja að þar kallist Haraldur á við sendiherra Evrópusambandsins. Með leyfi forseta:

„Rökin sem tiltekin eru fyrir því að Íslendingar ættu að gangast undir orkulöggjöf Evrópusambandsins eru í fyrsta lagi að hún sé ljómandi góð fyrir neytendur. Umhyggja sendiherrans fyrir neytendum á Íslandi er vissulega aðdáunarverð, en hann getur verið þess fullviss að Alþingi og önnur stjórnvöld á Íslandi eru fullfær um að tryggja hagsmuni neytenda og ef eitthvað vantar þar upp á geta íbúar landsins kosið sér nýtt Alþingi. Það er kallað lýðræði og virkar betur en sú aðferð að fela ókjörnum aðilum í útlöndum völdin. Þá bendir sendiherrann á að Norðmenn lendi í vandræðum ef Íslendingar gangist ekki undir lögin. Vera má að Norðmenn séu álitnir aular í því umhverfi sem sendiherrann er, en það er á skjön við reynslu þess sem þetta skrifar. Ef Norðmenn kæra sig um, verða þeir ekki í neinum vandræðum með að framselja allt það vald sem þeim sýnist út í buskann, án leiðsagnar og hjálpar Íslendinga. Reyndar er það svo að yfirgnæfandi meiri hluti Norðmanna kærir sig ekki um orkulagabálkinn svo viðbúið er að vinum Íslendinga í Noregi muni fjölga ef málið spillist. Síðast en ekki síst segir sendiherrann að hluti EES-samningsins ógildist hugsanlega tímabundið. Þar á hann væntanlega við fyrri orkubálka. Vandséð er að það skipti Íslendinga og Evrópusambandið máli að þeir falli niður. Ef sendiherrann á við að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir sem lúta að orkumálum ógildist er rétt að hann orði þær hótanir skýrar svo ekkert fari milli mála.“

Hér er m.a. bent á að sendiherra ESB var kallaður til sem álitsgjafi um hvernig Íslendingar þjóni sínum eigin hagsmunum best. Slíkir álitsgjafar hafa verið áberandi undanfarið. Álitsgjafarnir beita óprúttnum aðferðum eins og að kalla þá sem hafa uppi varnaðarorð einangrunarsinna, popúlista og þaðan af verra. Það er ekki óþekkt að sumir stjórnmálaflokkar telji að hagsmunum okkar sé best borgið við inngöngu í ESB. Aðrir vilja líkt og ég eiga í góðu samstarfi við aðrar þjóðir.

Ég velti því hins vegar fyrir mér á hvaða vegferð ríkisstjórnarflokkarnir, sem hingað til hafa stigið varlega til jarðar, eru. Það má í því sambandi nefna að ályktanir sem þeir hafa gefið frá sér á fundum eru á skjön við þá stefnu sem þeir hafa tekið í þessu máli og nefni ég þar Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætla sér í raun að fara gegn stefnu eigin flokka. Ég spyr: Hver er ástæðan? Er það raunverulega þannig að hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru ekki hafðir að leiðarljósi? Hverjir skyldu hagnast? Sennilega raforkufyrirtækin, þau sem nú eru á markaðnum og óstofnuð fyrirtæki um raforkuvinnslu og annað því tengt. Vissulega mun ríkissjóður hagnast til að byrja með en hættan er samt sú að ríkið muni fórna framleiðslugeiranum. Gerist það að samkeppnisstaða okkar versni verður þjóðhagslegt tap mikið.

Ég bendi einnig á að nú um stundir virðist vera mikill áhugi erlendra fjárfesta á landakaupum. Minni virkjanir þurfa ekki að fara í umhverfismat vegna smæðar sinnar en séu allar þessar virkjanir lagðar saman er hér um að ræða gríðarlegt magn. Nú þegar er byrjað að gera tilraunir með svokallaðar djúpboranir en ætla má að í framtíðinni verði sú leið lengra komin.

Ég leyfi mér að vitna í frétt Viðskiptablaðsins, 28. maí 2019, með leyfi forseta:

„GEORG jarðhitaklasinn heldur utan um styrki til jarðvísindaverkefna á Íslandi, þar á meðal fyrir Horizon 2020 verkefni Evrópusambandsins, sem er stærsta rannsóknar- og þróunaráætlun sögunnar. Hefur áætlunin úr um 80 milljörðum evra, eða sem samsvarar 9.750 milljörðum íslenskra króna, að spila á árabilinu 2014 til 2020.“

Enn fremur kemur fram á öðrum stað, með leyfi forseta:

„HS Orka leiðir Deepegs verkefnið, en það hlaut 20 milljóna evra styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020. ÍSOR og Landsvirkjun taka einnig þátt í verkefninu af Íslands hálfu, en það snýst um annars vegar djúpborunarverkefni á Reykjanesi og hins vegar aðra djúpborun í Frakklandi. Þetta er samstarfsverkefni þar sem menn læra hverjir af öðrum, sem hefur gengið ágætlega, þó að það hafi aðeins verið hiksti í því út af leyfismálum og öðru slíku í Frakklandi.“

Þetta er bara það sem er í gangi núna.

Hæstv. forseti. Það sem helst hefur vantað í umræðurnar undanfarið — að sjálfsögðu verð ég undanskilja málflutning okkar Miðflokksmanna eða þeirra sem hafa tekið til máls á móti málinu — er að birta sviðsmyndir um hvað innleiðing þriðja orkupakkans gæti haft í för með sér. Þær eru margar og auðvitað veltur mikið á því hvort hagsmunaaðilar láti reyna á rétt sinn, verði tilskipunin innleidd, og beiti sér fyrir því að fá lagðan hér sæstreng.

Lagalegi fyrirvarinn, sem sagt er að sé til staðar en finnst víst hvergi, mun að öllum líkindum ekki halda. Hver er þá staðan? Ein sviðsmyndin gæti verið þessi: Fyrirtækið Atlantic SuperConnection sem lýst hefur áformum um að framleiða rafstreng á Norður-Írlandi og leggja hann til Íslands, bíður áreiðanlega eftir því að Evrópurétturinn taki fyrir málefni millilandatengingar rafmagns við Ísland. Sýni íslensk stjórnvöld mótspyrnu gagnvart þessu verkefni eftir að hafa beitt sér fyrir innleiðingu orkupakka þrjú má vissulega búast við kærumálum fyrir EFTA-dómstólnum. Með öðrum orðum verða höfðuð brotamál vegna EES-samningsins og kröfugerð verður fyrir íslenskum dómstólum um skaðabætur á hendur íslenska ríkinu fyrir óþarfatafir á að hefja ábatasöm viðskipti. Alþingi er augljóslega að skapa mikla réttaróvissu ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af orkupakka þrjú.

Þess ber að geta að Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson eru búnir að vara við þessari hættu í álitsgerð sinni frá 19. mars 2009.

Gerist eitthvað þessu líkt eða nákvæmlega þetta er búið að opna Pandóruboxið. Við munum sjá hækkandi raforkuverð til fyrirtækja og heimila. Innri markaður fyrir raforku gerir nefnilega ráð fyrir því að eitt markaðsverð gildi. Skiljanlegar áhyggjur garðyrkjubænda um að raforkuverð verðleggi þá út af markaðnum munu rætast. Sérstaða okkar í ýmiss konar framleiðslu þar sem við höfum notið þess að geta boðið upp á ódýra, endurnýjanlega orku mun leiða til þess að framleiðsla flyst úr landi. Hvað skyldi verða um öll gagnaverin sem nú hafa verið byggð hér á landi?

Þessi sviðsmynd er vissulega ljót en hún er engu að síður raunveruleg, fari allt á versta veg. Slíkt megum við ekki láta henda íslenska þjóð. Við verðum alltaf að muna að við erum örþjóð innan EES-svæðisins. Þar búa 400 milljónir manns. Þar eru margir risafjárfestar sem renna hýru auga til raforkuframleiðslu okkar.

Það er því engin önnur skynsamleg leið en að hafna þriðja orkupakkanum, virkja 102. gr. í EES-samningnum og taka málið upp í sameiginlegu nefndinni. Það er ekki popúlismi, einangrunarhyggja eða nokkuð þvíumlíkt. Það er ábyrgt, skynsamlegt og það sem okkur þingmönnum ber að gera.