149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem mér þykir líka áhugavert að skoða, ef maður skoðar sögu málsins frá upphafi, eru bréfaskipti sem fóru fram í þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, t.d. frá 2001 þar sem fjallað er um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„… hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtæki veita nú afslátt af raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.“

Þá er bætt við, með leyfi forseta:

„Þá mun breytt skipan orkumála sem unnið er að líklega kalla á breytingar á þessum reglum.“

Hér er ráðuneytið ekki einu sinni með það á hreinu hvort þetta hafi áhrif á húshitun eða ekki. (Forseti hringir.)

Ég vil bæta við og nefna við hv. þingmann: Er þetta ekki kjarni málsins, að við vitum ekki hvaða áhrif þetta mun hafa vegna þess að ráðamenn (Forseti hringir.) hafa hreinlega farið rangt með staðreyndir?