149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er álitið mjög óvenjulegt og pólitískt. Þarna er ekki um að ræða hefðbundið lögfræðilegt álit, enda kemur fram í álitinu að það væri algjörlega skaðlaust að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er reyndar atriði sem utanríkisráðherrann kaus að sleppa úr samantekt sem hann birti um álit Baudenbachers. Sá hluti var ekki þýddur og settur í samantektina.

En hvað um það, þetta er óvenjulegt álit og pólitískt. Þótt ég hafi nefnt það áðan að ég þekkti Baudenbacher ágætlega og hefði álit á honum erum við ekki samherjar í pólitík. Við erum ekki sammála pólitískt og kannski allra síst í Evrópumálum. Það kom því verulega á óvart, samt kannski ekki miðað við hvernig til málsins er stofnað, að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skyldi leita eftir pólitísku áliti þessa manns á því efni sem hér um ræðir. Ég hefði skilið það ef ráðherra Viðreisnar eða Samfylkingar hefði leitað eftir áliti úr þessari átt en maður getur ekki dregið aðra ályktun en þá að tilgangur hæstv. ráðherra með þessu útspili, sem kom vel að merkja löngu eftir að umræða um þetta var byrjuð í nefndinni og skömmu áður en lokað var fyrir frekari gestakomur, hafi átt að vera viðbrögð við þeim vandræðum sem ríkisstjórnin var þá þegar lent í við að rökstyðja þessa innleiðingu. Þá kemur þetta pólitíska álit með svona merkilegum setningum eins og hv. þingmaður las upp áðan.