149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að mér þykir í sjálfu sér alvarlegt að við skulum hafa ánetjast því kerfi að taka þátt í bókhaldsbrellum til þess að láta Evrópusambandið líta betur út. Það kann vel að vera að við höfum af því einhverjar tekjur. En í mínum huga eru sumir hlutir ekki falir fyrir peninga.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann aftur hvort úr þessu viðskiptasambandi okkar við Evrópusambandið sé einhver útleið eða hvort við séum búin að flækja okkur í þennan vef til allrar framtíðar, þessar uppboðsheimildir. Getum við hætt að selja heimildirnar? Getum við dregið eitthvað af þeim til baka? Getum við hætt að láta líta þannig út að við séum að framleiða orku með kolum og kjarnorku? Því fer náttúrlega víðáttufjarri, við erum ekki að því. Og ef svo er, hvernig myndum við fara að því að losna úr þessu neti blekkinga sem hefur verið sett upp af okkur og Evrópusambandinu í sameiningu?

Ég hef áhyggjur af því að þetta gæti til lengri tíma litið varpað skugga á þá ímynd sem Ísland hefur skapað sér sem land sem byggir nær eingöngu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Það væri gott að fá stutt svar frá hv. þingmanni um akkúrat þetta.