149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, ég held að það sé brýnt að þessar upplýsingar verði allar skoðaðar í kjölinn. Ég hef séð á netmiðlunum að þingmenn hafa sagt að þetta mál sé fullrætt. Forsætisráðherra hefur sagt að málið sé fullrætt.

Það má líka minna á að þó nokkuð margir þingmenn hafa aldrei tekið til máls í þessu máli, sem segir manni að hér hefur ekki farið fram nægilega vönduð umræða vegna þess að það þarf að svara mörgum spurningum, mörgum spurningum er enn þá ósvarað.

Það sem er sýnu alvarlegast er að núna á síðustu metrunum koma fram veigamiklar upplýsingar, sem breyta þessu máli heilmikið, eins og t.d. fréttir sem birtust í The Times í Bretlandi í gær um að sæstrengsverkefnið væri nánast fullfjármagnað. Og röksemdafærsla héraðsdómarans sem nefndur var hér, þess efnis að öllum fyrirvörum verði hrundið, er mjög vel ígrunduð og vel fram sett. Það er jú búið að breyta skilgreiningu á raforku með þeim hætti að nú er hún orðin vara og í EES-samningnum er þetta svokallaða fjórfrelsi, þ.e. varan er þar undir.

Síðan eru það fjármagnsflutningarnir og fleira sem er innan samningsins. Sem mun þýða að við getum ekki sett okkur upp á móti því að hér verði frjálst flæði vöru. (Forseti hringir.) Og þá er alveg ljóst að þessir fyrirvarar koma ekki (Forseti hringir.) til með að halda. Því miður.