149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það gæti líka verið sjónarmið að sum fyrirtæki standa í þannig rekstri að þau kæra sig kannski ekkert um þetta. Þau kæra sig kannski ekkert um að flagga einhverjum hreinleika og þurfa þess kannski alls ekki með.

Ég tók eitt dæmi hér um daginn. Vera má að íslenskt fyrirtæki sem framleiðir, segjum bara sokka, og fær til þess raforku, kaupir raforku frá orkufyrirtæki hérlendis, en síðan er annað fyrirtæki úti í Evrópu, segjum í Frakklandi, sem er að gera það sama í samkeppni við hið íslenska. Kaupendurnir, sem eru þá einhverjar verslunarkeðjur og kaupa sokka velta því fyrir sér af hverjum þær eigi að kaupa sokkana og heyra það frá viðskiptavinum sínum að þeir leggi mikið upp úr því að vörurnar séu framleiddar með endurnýjanlegum orkugjöfum og spyrja einmitt um það. Er þetta framleitt í verksmiðju sem notar endurnýjanlega orku? Þá er mikilvægt fyrir framleiðandann að geta framvísað vottorði, hvort sem raunveruleikinn er sá að þetta komi frá slíku orkuveri eða kjarnorkuveri.

Íslenski aðilinn sem ekki getur framvísað slíku vottorði lendir í vandræðum. Verslunarkeðjurnar segja við hann: Hvar er vottorðið? Hann segir: Við á Ísland notum enga kjarnorku. Og ekkert vottorð er til staðar. Hann er strax kominn í þá aðstöðu að hann þarf að kaupa. Ef það er ekki til, það er reyndar enn þá til, flest íslensku orkufyrirtækin geta útvegað notendum sínum þessi vottorð vegna þess að það er svolítill afgangur, því að megnið af orkunni fer til stóriðju. Stóriðjunni er kannski bara alveg sama um hver uppruninn á vottorði er.