149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Sú spurning sem þingmaðurinn veltir upp í lokin er: Mun það koma til að óskað verði eftir undanþágu frá fjórða orkupakkanum og erum við, eins og raunin virðist vera gagnvart undanþágubeiðnum er snúa að þriðja orkupakkanum, mögulega búin að þrengja stöðu okkar með því, eins og þingmaðurinn orðaði það, að innleiða með slíkum bravör að öllum málumleitunum um undanþágur, ekki öllum en stórum hluta þeirra, var hafnað á grundvelli þess að ekkert benti til þess að Ísland þarfnaðist slíkra undanþágna, þjóðinni í landinu hefði tekist svo vel til við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans og gæti bara haldið áfram með þriðja pakkann á sömu nótum?

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann mögulegt að við sköðum sjálf möguleika okkar til að fá undanþágur sem skipta máli, undanþágur sem setja þetta regluverk allt í samhengi við raunverulegar íslenskar aðstæður? Getur verið að sá skaði sem við völdum mögulega hagsmunum okkar sé þeirrar gerðar að raunverulega muni þegar á reynir og fjórði orkupakkinn kemur á færibandinu — og með það í huga að eitt af markmiðum um fjórða orkupakkann, þó að ég sé ekki búinn að sjá gögn málsins en sú fréttaskýring sem ég hef séð um það bendir m.a. til þess að þar eigi að útvíkka og styrkja valdheimildir ACER, sem eru nú kjarnaáhyggjuatriði okkar hvað fullveldisþátt málsins varðar?

Þannig að spurningin til hv. þingmanns er: Völdum við mögulega (Forseti hringir.) okkar eigin málstað tjóni með því að nálgast innleiðingu þriðja orkupakkans eins og við höfum gert hingað til — eða réttara sagt eins og utanríkisráðherra hefur gert?