149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmaður, er stutta svarið. Auðvitað er fyrsta atriðið í því, og náttúrlega í öllum málum sem fara í gegnum þetta þing, að menn vandi til verka, sérstaklega í málum af þessari stærðargráðu sem varða þjóðarhag, ekki bara nú um stundir heldur til framtíðar, mál sem ekki er hægt að vinda ofan af, jafnvel þótt menn komist að því að hér hafi verið gerð mistök. Það er það sem við höfum bent á, að það sé veruleg hætta á að hér sé verið að gera stór mistök.

Það eru fleiri og fleiri sem ekki voru endilega kallaðir fyrir utanríkismálanefnd eða atvinnuveganefnd, sem koma nú fram á samfélagsmiðlum og annars staðar og segja nákvæmlega það sem við höfum verið að halda fram í þessari umræðu: Fyrirvararnir í málinu standast ekki.

Ef hér verður lögsókn út af rangri innleiðingu stöndum við frammi fyrir skaðabótum. Það hafa fleiri en einn og fleiri en tveir sagt, og síðast nú í morgun svaraði virtur lögmaður fullyrðingu hæstv. forsætisráðherra frá því í gær með mjög afgerandi og skýrum hætti.

Við þurfum að kappkosta að við vinnum þetta mál með þeim hætti að það verði ekki okkur til skaða, þinginu til skammar, þegar fram í sækir, og börnunum okkar og barnabörnum til ógæfu. Það er það sem við þurfum að treysta og tryggja akkúrat núna.