149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er að sjálfsögðu mjög áhugavert að velta því fyrir sér. Hvar endar skilgreiningin á því hvað sé vara í augum Evrópusambandsins og þá fjórfrelsisins, eins og kallað er? Það átti náttúrlega engin von á því að raforka yrði skilgreind sem vara og að hún myndi lúta sömu lögmálum og aðrar vörur í þeim efnum. En það hefur orðið veruleikinn. Við sjáum hvað það hefur þýtt fyrir okkur. Markaðsvæðing raforkunnar hefur ekki orðið okkur Íslendingum til góðs. Ég fullyrði það.

Það eru þingmenn sem telja að hér hafi skapast mikilvæg samkeppni, neytendavernd o.s.frv. Þetta stenst ekki skoðun. Ef það er einhver samkeppni held ég að hún flokkist sem nokkurs konar gervisamkeppni og um það hafa fræðimenn ritað og sýnt fram á að þeir hlutir hafa reynst okkur illa. Það er kjarni málsins.

Auðvitað veit maður ekki hvar þetta endar. Við eigum náttúrlega mjög dýrmætar auðlindir, t.d. vatnið okkar hreina og tæra, sem er mjög mikil auðlind.

Ég segi fyrir mitt leyti, hv. þingmaður: Þetta hefur ekki orðið okkur til góðs. Þess vegna eigum við að læra af reynslunni og stíga mjög varlega til jarðar þegar kemur að innleiðingu orkupakkans.