149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér segja að fréttir gærdagsins upp úr stórblaðinu London Times, sem fluttar voru fréttir af í innlendum fjölmiðlum — sú frétt ein um að sæstrengur sé í augsýn, að búið sé að undirbúa þetta mál. Það er meira að segja langt komin fjármögnun á því verkefni, ef hún er ekki þegar frágengin.

Það sem þessir lagamenn eru að segja, Friðrik Árni og Stefán Már í neðanmálsgrein 62 er: Jú, jú ríkisvaldið getur haldið því fram að hér verði ekki lagður sæstrengur en þá verða menn að gera sér grein fyrir því að á ríkissjóð gætu fallið stórkostlegar bótakröfur vegna samningsbrota.

Þetta er staðan. Það er þetta sem þeir lýsa, bæði tvímenningarnir Friðrik Árni og Stefán Már og héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson. Menn verða að gera sér grein fyrir þeirri stöðu.

Við erum að tala um verkefni upp á 400 milljarða. Hverjar telja menn að yrðu kröfur á hendur ríkinu í slíku máli? Við sjáum að í nýlegum dómi Hæstaréttar fékk innflutningsfyrirtæki dæmda 3 milljarða vegna þess að ályktað var að um samningsbrot væri að ræða vegna kjötinnflutnings. Hér erum við að tala um kröfur sem myndu ekki hlaupa undir tugum heldur miklu líklegar á hundruðum milljarða króna. Ætla menn að halda áfram á þeirri braut?