149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er fróðlegt fyrir alla þá sem fylgjast með og hafa fylgst með umræðum hér undanfarin dægur að hugsa til þess að á þeim tíma sem umræðan hefur staðið hafa komið fram mikilsverðar upplýsingar sem ekki lágu fyrir í upphafi umræðunnar. Má t.d. nefna að í upphafi umræðunnar lágu ekki fyrir þau fyrir áform sem alþjóðlegt stórfyrirtæki hefur til að tengja Ísland og England með sæstreng. Það lá heldur ekki fyrir þegar við hófum umræðuna, eða það hafði ekki komist í hámæli, skulum við segja, því að það lá í sjálfu sér fyrir, að fjórir málsmetandi lögfræðingar að lágmarki hefðu látið þess getið að sú leið sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir og fylgifiskar þeirra eru að fara í málinu væri til þess fallin að valda lagalegri óvissu. Þetta lá ekki mjög skýrt fyrir og hafði ekki verið haldið á lofti þegar umræðan hófst.

Þá lá heldur ekki fyrir þegar umræðan hófst að þetta gæti haft áhrif á stjórnarskrá Íslands að því marki sem ekki hafði verið gert áður. Það hafði heldur ekki farið í hámæli. Það hafði verið umræða um það innan húss milli manna en í sjálfu sér ekki verið vakin á því veigamikil athygli. Það er þess vegna merkilegt að fara yfir þetta núna og nauðsynlegt að fara yfir þetta núna. Ef stjórnarflokkarnir hefðu haft sitt fram ásamt fylgifiskum sínum væri þegar búið að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, Ísland væri þegar búið að innleiða þennan orkupakka með meingölluðum fyrirvörum og við stæðum frammi fyrir því að verið væri að tengja Ísland með sæstreng af erlendu fyrirtæki sem er búið að fjármagna sig og er núna að sækja sér leyfi breskra yfirvalda, vegna þess að það virðist einhvern veginn vera þannig að þetta fyrirtæki telur sig ekki þurfa leyfi íslenskra stjórnvalda til þess að fara sínu fram hvað þetta varðar.

Ef þetta hefði gerst stæði þjóðin frammi fyrir þessum gerða hlut án þess að hafa getað gert nokkuð eða haft nokkur áhrif á það sem gerst hefði, einfaldlega vegna þess að það hafði enginn spurt þjóðina hvað hún vildi í málinu. Það hefur reyndar komið í ljós í skoðanakönnunum að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að taka þennan orkupakka upp í íslenskan rétt. Engu að síður hafa ríkisstjórnarflokkarnir, ásamt fylgifiskum sínum, ákveðið að hafa meirihlutavilja þjóðarinnar að engu og troða orkupakkanum ofan í hálsmálið á fólki, troða honum í gegnum þingið á eins miklum hraða og hægt er. Í sjálfu sér var komið í veg fyrir það með því að halda uppi nokkru andófi gagnvart því, með því að móast við, vegna þess að eins og einn ágætur maður sagði er það ekki málþóf að verja þjóðarhagsmuni.

Það er nefnilega mergurinn málsins, herra forseti, að þótt við stöndum hér nú og séum á þeim stað í umræðu á þinginu sem aldrei hefur verið áður, eins og þessum fundi sem nú stendur, þá er það ekki af engu, það er ekki að ástæðulausu og það er ekki til einskis. Það er þess vegna (Forseti hringir.) sem sá hópur sem hér er mun halda áfram að funda um þetta mál, vegna þess að það er ekki málþóf að verja þjóðarhagsmuni.