149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

störf þingsins.

[09:48]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlýleg orð í minn garð. Ég þekki það úr fyrri störfum mínum sem rithöfundur að fólk vildi oft ræða við mig um skrif mín og spyrja við hvað ég hafi átt með hinu og þessu og jafnvel bera undir mig túlkanir sínar á skrifum mínum. Ég hef jafnan tekið slíku vel og geri mér líka grein fyrir því að túlkanir geta verið margvíslegar á því sem maður skrifar. Ég virði rétt hv. þingmanns til að túlka skrif mín að vild en hefði þó þegið örlítinn fyrirvara á þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín, eins og mér skilst að sé þingvenja þegar orðum er beint til þingmanna undir þessum lið, að þá fái þeir örlítinn tíma til að bregðast við þeim spurningum. En því var ekki að heilsa í þetta skipti.

Það stendur til samkvæmt þessum lögum að fjölga bankastjórum. Við sem erum aðeins yfir miðjum aldri þekkjum alveg hvað það táknar þegar flokksvaldið, flokkakerfið, fær tækifæri til að fjölga bankastjórum. Það táknar helmingaskiptareglu. Og helmingaskiptaregla táknar fúsk. Það táknar að flokkarnir koma vildarmönnum sínum fyrir í embættum. Seðlabankinn var um árabil nokkurs konar Flórída (Forseti hringir.) íslenskrar stjórnsýslu. Ég óttast að verið sé að vekja á ný upp þá (Forseti hringir.) Flórídu með þessu frumvarpi.