149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það kom alveg skýrt fram að óháð því hvort hjálmanotkun er skylda eða ekki er mikilvægt öryggisatriði að sem flestir noti hjálm. Allir voru sammála um það. Og með löggjöfina, hvort það yrði skylda eða ekki, þá áttu þeir ekki von á því ef það væri skylda að nota hjálm að færri myndu nota hjálm heldur að færri færu út að hjóla. En þarna erum við að tala um aldurshópinn 17 og 18 ára sem við bætum aukalega við. Ég held að hjálmanotkunin sé það lítil þar í dag að ekki sé úr háum söðli að detta. Ég held, eftir að hafa starfað í lögreglunni og verið í umræðu innan foreldrahópa í skóla og annað, að það sé til það mikils að vinna í umferðaröryggi að betra sé að setja slíka skyldu á þótt hætta sé að missa fleiri hjólreiðamenn úr þeim aldurshópi. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref.