149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson hefur ögn meiri reynslu af uppeldi barna en sá sem hér stendur, þannig að ég held að ég ætli ekki að fara í mikið reiptog við hann um hvernig best sé fyrir foreldra að leggja börnum sínum lífsreglurnar. En ég held að fyrir marga foreldra sé ákveðið haldreipi í því að vissir hlutir séu í lögum. Ef einhver menningarlegur þrýstingur er á að börn á unga aldri séu hjálmlaus er mjög gott að geta sem mamma eða pabbi sagt: Nei, fyrirgefðu, vinur, þetta er bannað. En ég ætti kannski að fá námskeið hjá þingmanninum í því hvernig maður leggur börnunum sínum lífsreglurnar á mildilegri hátt og nær árangri engu að síður.

Við erum dálítið að hnita í kringum ákveðin, ja, ég veit ekki hvað við köllum það, við tölum um skynsemi, við getum líka talað um tillitssemi. Þetta eru svona kurteisis- og atferliseiginleikar sem skipta dálítið miklu máli hvað varðar þá þróun sem er að verða varðandi hjólreiðar. Jú, það er örugglega hægt að vísa til skynsemi og fá fólk til að nota hjálma þar sem við á. Eins varðandi þessa ólíku máta hjólamennsku til að fá þá til að virka saman, kannski á aðskildum reinum eða hvað það er. Þar erum við að kalla eftir tillitssemi. Ég veit ekki hvort við getum fest þetta í lög. Ég veit ekki hvort rétt sé að taka á ótta Seltirninga við hraðskreiðum hjólreiðamönnum með því að leyfa Seltjarnarnesi (Forseti hringir.) að setja 15 km hámarkshraða á hjólastíga. Kannski er hægt að höfða til tillitssemi þeirra sem fara svo hratt yfir að fólki þyki (Forseti hringir.) standa ógn af og þeir beini sér (Forseti hringir.) bara út á götur í staðinn.