149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það eru örfá atriði sem mig langar koma á framfæri og ég hef aðeins áhyggjur af. Í fyrsta lagi verð ég að segja að auðvitað er gott að heilbrigðisstefna komi fram, mikilvægt að það misskiljist ekki. Heilbrigðisstefna er vitanlega ekkert nema orð á blaði nema áætlun fylgi um hvernig eigi að ná þeim orðum fram. Hvernig eigi að framkvæma þau, hvort fjármagn sé til að láta öll þau fallegu orð verða að veruleika. Ég fæ ekki séð að svo verði.

Hins vegar er ljóst af þeim umsögnum sem ég hef náð að kynna mér — ég vil alveg vera heiðarlegur með það og taka fram að ég hef ekki náð að lesa þær allar — en það sem ég hef náð að kynna mér er töluverð gagnrýni á undirbúninginn að heilbrigðisstefnunni, þ.e. að nokkuð er kvartað yfir samráðsleysi og hvernig hugtakanotkun er og ýmislegt þess háttar. Ég sé líka og finnst áhugavert að nefndin virðist afgreiða málið án þess að taka sérstaklega mikið á þeim umkvörtunum sem komu fram, það er einna helst að í áliti minni hlutans, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sé gerð ágætistilraun til þess. Ekki nema fólk líti einfaldlega á þetta sem falleg orð á blaði og þurfi síðar meir að taka á stóru málunum. Því að stefnan er vitanlega ekkert annað nema hún sé að fullu fjármögnuð og markmiðin tímasett og slíkt. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið rætt í nefndinni hvernig þeim markmiðum skuli náð. Hvenær búast megi við því að þau verði þá tímasett og fjármögnuð. Ég velti líka fyrir mér hvort kostnaðarmat hafi verið lagt fram á því eða reynt að áætla það. Ég geri mér grein fyrir að þetta er stefna til langs tíma og verður væntanlega endurnýjuð nokkrum sinnum.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því samt sem áður hvort stefnan er til þess fallin að auka kostnað, hversu mikið eða hvort hún muni draga úr kostnaði því að heilbrigðiskerfið er vitanlega kostnaðarsamt. Það er dýrt að reka öflugt heilbrigðiskerfi en við viljum að sjálfsögðu að það sé öflugt á sama tíma. Þetta eru vangaveltur um þetta allt saman, þ.e. tilurðina, innihaldið í sjálfu sér eða hvernig þetta er sett fram og hversu trúverðugt þetta er. Ég sé t.d. að hjúkrunarfræðingar gera töluverðar athugasemdir við skilgreiningar eða hvernig talað er um annað hjúkrunarstarfsfólk, minnir mig að það sé orðað, heilbrigðisstarfsfólk, já.

Ég held að mjög mikilvægt sé þegar við förum að útfæra stefnuna við fjármögnunina að þess verði gætt að þær aðgerðir sem farið verði í verði til þess fallnar að bæta umhverfi alls þessa frábæra fólks sem vinnur á spítölunum eða í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarfræðingar eru mjög mikilvægir og það væri svo sem sérkennileg staða ef þeir gengju allir úr skaftinu allt í einu. Við erum með öfluga og flotta lækna en við þurfum líka á öðru starfsfólki að halda. Það þarf að horfa á starf þess þannig að það sé metið að verðleikum og starfsumhverfið sé gott. Og líka að þetta frábæra menntaða fólk sjái tækifæri til þess að koma til starfa aftur í samræmi við sína menntun.

Ég vil líka koma inn á það sem Læknafélagið minntist á í umsögn sinni, þ.e. að lítið ef nokkuð er talað um réttindi sjúklinga. Viðskiptavinirnir í heilbrigðiskerfinu þurfa vitanlega að hafa ákveðna sýn, þetta snýst allt um þá þegar á hólminn er komið, hvernig þjónustu þeir fá og upplifun þeirra af þjónustunni og batanum sem við væntum að viðskiptavinirnir nái.

Í ræðum hefur verið minnst á, og við hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson ræddum það örlítið í andsvörum, samráðið, biðlista og félagasamtök. Það virðist gegnumgangandi vera gagnrýni á samráðsleysið eða hvernig staðið var að gerð áætlunarinnar. Sér í lagi virðist það vera frá þeim aðilum sem gjarnan eru skilgreindir sem utan ríkisapparatsins og er það í sjálfu sér áhyggjuefni því að þetta er stór og afar mikilvægur þáttur. Það er mjög mikilvægt að við gætum þess að sá þáttur geti starfað, ekki síður en sá sem við erum með beint undir ríkinu, þ.e. læknar eða annað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur tækifæri til að veita góða þjónustu utan spítalanna eða alls ríkiskerfisins. Það þarf að sjálfsögðu að vera þannig að það sé fýsilegt og geti skilað okkur árangri. Það finnst mér vera gagnrýnt í þessu.

Einnig er augljóst af stefnunni að ráða að lítið er unnið í að stytta biðlistana. Ekki er að sjá að í stefnunni sem slíkri felist neinar aðgerðir til að höggva á biðlistana. Að sjálfsögðu þarf að koma fram markmiðsáætlun og fjármögnun, hvernig það á að vera. Biðlistar eru eitt af mörgum vandamálum og áskorunum sem eru í heilbrigðiskerfinu. Þetta er vitanlega, hæstv. forseti, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, galið, hvernig við sjáum systemið virka þegar kemur að því að hægt er með einkaaðilum fyrir utan sjúkrahúsin að framkvæma aðgerðir, t.d. liðskipti og slíkt. Það er mjög sérstakt hvernig þetta er í framkvæmd. Maður hefur á tilfinningunni að það sé þvermóðskan ein sem ræður því að á þetta er ekki hoggið, þ.e. á þennan hnút.

Síðan eru frjálsu félagasamtökin sem eru geysilega mikilvæg. Má segja um það að í tíð núverandi heilbrigðisráðherra virðast þau hafa mætt ótrúlegum kulda og samskiptaleysi eða áhugaleysi, líkt og þeir læknar og sérfræðingar sem starfa á einkastofum. Það er mjög sérstakt að sjá ekki kostina í að nýta frumkvæðið og hugmyndaauðgina sem er hjá einstaklingum fyrir utan þetta venjulega þekkta system, ef ég má orða það þannig.

Þetta eru svona nokkrir punktar, hæstv. forseti, sem ég taldi rétt að fara yfir. Í nefndaráliti minni hlutans er einmitt lögð áhersla á þetta, að nýta krafta einkaaðila sem geta framkvæmt aðgerðir með hagkvæmum hætti og jafnvel hagkvæmari, ef út í það er farið, en ríkisbatteríið. Ég tel ekki hægt að setja upp kerfi eða fara fram með stefnu sem slær á þennan möguleika. Ég held að það sé mikil áskorun og hvati fyrir heilbrigðisstarfsfólk að mennta sig og taka þátt í þessari atvinnugrein ef það sér tækifæri, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfólk, sjúkraliðar eða aðrir, að starfa fyrir utan þetta hefðbundna batterí, ef ég má orða það þannig, og nýta þannig þekkingu sína til að fara í einhverja nýsköpun og þess háttar.

Annað sem virðist ekki vera fjallað um í þingsályktunartillögunni er samkvæmt áliti minni hlutans endurhæfing, öldrunarþjónusta utan spítalaþjónustu og lýðheilsa — mér sýnist það orð koma bara einu sinni fyrir í tillögunni, í það minnsta við fljótan yfirlestur — forvarnir, dvalar- og hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál. Maður veltir fyrir sér hvort hugmyndafræðin sé að skila hér fram einhverjum almennum orðum og geta svo hrært í allri súpunni eftir eigin geðþótta. Eða hvort við eigum von á því að nánar tilgreind áætlun komi síðar meir. Það virðist ekki vera. Það er eins og verið sé að reyna að haka í boxið en ætla sér svo einhvern veginn að dúllast með þetta eins og ráðherra sýnist. Eldri borgurum fjölgar með bættri heilsu. Mikilvægt er að á það sé horft líka.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins sjúkrahúsþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem er fyrir utan höfuðborgina. Það er gríðarlega mikilvægt að menn horfi til þess að t.d. Sjúkrahúsið á Akureyri verði þannig búið að það standi ekki Landspítalanum að baki þegar kemur að mögulegri þjónustu og þar verði byggð upp, ég myndi segja þjónusta eða geta sem er svona nálægt því að vera eins og Landspítalinn veitir. Ég treysti mér ekki til að orða þetta sterkar því að ég hef kannski ekki kunnáttu til að nota sterkari orð. Í mínum huga er ljóst að sú frábæra starfsemi sem þar fer fram þarf að fá tækifæri til að vaxa enn frekar. Það held ég að sé okkur öllum til góða og myndi létta mögulega álaginu af stóra sjúkrahúsinu okkar sem er að sjálfsögðu flaggskip okkar í heilbrigðiskerfinu, sem er Landspítalinn. Landspítalinn og sú stjórnun og starfsemi sem þar fer fram, þótt hún sé frábær í alla staði, er ekki hafin yfir gagnrýni á nokkurn hátt, ekki frekar en önnur starfsemi og því ber einnig að horfa á það.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í byggingu nýja sjúkrahússins, sem er vitanlega algjört rugl. Byggja á það á nýjum stað en sú umræða er í hléi eins og er. Að sjálfsögðu þurfum við að halda áfram að minna á hana, því að manni sýnist að það sé enn besta lausnin að byggja upp nýjan spítala á nýjum stað og einhenda sér í það.

Talað er um þjónustukaup og þess háttar. Það þarf að sjálfsögðu að miða við þarfir íbúanna og að sjálfsögðu á þjónusta á heilbrigðissviði að taka mið af aðstæðum og þörfum hringinn í kringum landið.

Það er ekki að mínu viti hægt að bjóða upp á slíka þjónustu eins og hún er í dag til lengdar. Ef eitthvað kemur upp á er hringt í síma og þannig reynt að afgreiða málið gegnum símann án þess að sjá viðkomandi eða hafa nokkra tilfinningu fyrir því hverju viðkomandi er að óska eftir. Það er orðið mjög langt í lækninn í dag fyrir marga sem búa utan stóru þéttbýlisstaðanna. Það er mikil afturför. Ekki síst vegna þess að í mörgum tilfellum hefur þjónustan versnað og samgöngur hafa ekki batnað á sama tíma eða tækifæri fólks til að ná sér í þjónustu. Það hefur jafnvel versnað eða í það minnsta ekki batnað og þjónustunni fer aftur.

Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma að nokkrum vangaveltum um áhyggjuefni varðandi heilbrigðisstefnuna. Það er gott að fram komi stefna, en væntingarnar voru töluvert meiri.