149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er annað sem hann kom inn á, þ.e. skortur á hjúkrunarfræðingum, sem er eiginlega sliga kerfið að mörgu leyti. Hægt væri að fjölga stórlega aðgerðum á sjúkrahúsum ef því væri kippt í liðinn. Biðlistarnir lengjast í takt við skortinn.

Síðan kom hv. þingmaður líka inn á frjáls félagasamtök sem verið hafa að gera virkilega góða hluti. Ég myndi segja að í þessari stefnu hefði þurft að vera eitthvað um þessi frjálsu samtök, um hvernig eigi að styrkja þau betur. Ég óttast að mörg félagasamtök sem hafa verið að gera frábæra hluti fari að týna tölunni vegna þess að þau eru ekki styrkt nóg og ekki er nógu skýrt hvernig á að halda þeim á floti.

Síðan er það síðasta, þ.e. einkareknu stofurnar. Við notum þær mikið í dag. Þess vegna er það svolítið skrýtið ef maður fer að hugsa um það að maður getur farið í Orkuhúsið, maður getur farið í Domus Medica, maður getur farið á ákveðinn stað og fengið ákveðna þjónustu. Síðan getur maður ekki farið og fengið aðra þjónustu, sem er í sjálfu sér óskiljanlegt vegna þess að allt snýst þetta um það sama, að reyna að koma viðkomandi einstaklingi sem fyrst til sjálfsbjargar. Það er óskiljanlegt að það sé í lagi að gera eitt en ekki annað. Er svona stefnuleysi ekki einkennandi fyrir þessa flottu stefnu, sem er þá bara hálfgerð stefnuleysa?