149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem er afar brýnt og mikilvægt er að flokkar sem hafa skoðun á því að það eigi að leggja íslensku krónunni og taka upp evruna hafi hátt en láti ekki þagga niðri í sér, ekki aðeins með einhverjum útúrsnúningum og ómerkilegheitum heldur með ýmsu öðru eins og því að þetta sé bara aldrei á dagskrá. Þetta mál fer aldrei á dagskrá nema að við tölum um það þannig að ábyrgð okkar er mjög mikil, að við höldum áfram að ræða um að við viljum byggja hér upp langvarandi stöðugleika svo að við getum einmitt m.a. byggt upp þannig umhverfi að krónan hætti að valda til að mynda íslenskum fyrirtækjum sem eru í alþjóðlegri samkeppni ákveðnu tjóni. Núna eru íslenskir frumkvöðlar í samfélaginu að benda á það, sem betur fer. Ég hvet þá sem standa í sprota- og frumkvöðlastarfsemi áfram. Það sem maður fær iðulega að heyra þegar maður er að ræða við þá, það atriði sem þeir kvarta mest undan, er að þeir hafa ekki stöðugleikann sem þeir fá í gegnum erlenda mynt. Það er engin tilviljun að stóru fyrirtækin á Íslandi í sjávarútvegi, áliðnaðinum og stærstu fyrirtækin í ferðaþjónustunni gera öll upp í allt annarri mynt en íslensku krónunni. Þau eru varin gagnvart efnahagssveiflum en ekki íslenskur almenningur, ekki lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru nauðbeygð að búa við krónuna.

Hver eru mín skilaboð til hv. þingmanns og okkar sem erum hér inni og viljum þora að ræða efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma? Þau eru að við verðum að halda áfram að ræða það að taka upp annan gjaldmiðil og fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að við getum veitt framtíðarkynslóðum tækifæri til að velja hvernig framtíð þau vilja lifa og búa við.