149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Já, hverjir tapa? Ég var búinn að koma svolítið að því. Það eru fjölmörg dæmi og flestir þekkja þau. Ég er alls ekki að tala um að öll gjaldþrot megi rekja til óprúttinna aðila, alls ekki, langt í frá. Það er alkunn staðreynd í samfélaginu sem við horfum upp á hér og höfum horft upp á, sérstaklega á óróatímum, að menn ástunda þann leik. Menn hafa verið eitthvað feimnir við að taka á því. Menn taka á þeim aðilum með silkihönskum.

Mín hugmynd gengur út á það að við gefum atvinnufrelsinu fullan slaka í þeim efnum. Ef sami maður er í stjórn hlutafélags sem fer í þrot, kannski tvisvar sinnum á fimm ára tímabili, fyndist mér alls ekki vegið atvinnufrelsinu þótt viðkomandi aðili yrði sviptur rétti til að stofna slíkt félag í einhvern árafjölda. Það er alls ekki vegið að atvinnufrelsinu. Maðurinn getur verið launamaður, hann getur gert ýmislegt annað. Það er ekkert verið að svipta hann alfarið nema því að geta stofnað svona félag eða vera í forsvari fyrir svona félag.

Þeir sem tapa á því eru náttúrlega launamenn sem eru í vinnu hjá slíkum félögum og það lendir á ríkinu. Birgjar sem selja efni og vörur til slíkra fyrirtækja, skattarnir, virðisaukinn fellur á ríkið og innheimtist ekki. Það sem síðast en ekki síst má nefna er að þetta veldur almennu vantrausti í atvinnulífinu, almennu vantrausti í viðskiptum.