149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn sömu spurningar. Mér sýnist að í þessu máli séu stóru álitamálin þau hvort við séum að framselja of mikið af fullveldi okkar til erlendra stofnana, það sé eitt álitaatriði. Annað atriði sé varðandi yfirráð yfir auðlindunum, yfir skipulagsvaldinu, þ.e. auðlindinni okkar sem skapar rafmagnið í landinu og síðan allt stoðkerfið, alla innviðina, fyrirtækin o.s.frv.

Ég get sagt að ég varð bara gríðarlega hræddur þegar ég heyrði fyrst af þessari hættu sem stæði fyrir dyrum þegar ég heyrði fyrri umræðuna um þriðja orkupakkann og fór að kynna mér það. Ég er ekki hræddur í dag.

En varðandi stjórnskipulega fyrirvara mun ég halda áfram að gera það sem ég hef gert, sem er að láta stjórnarskrána njóta vafans. Mig langar að spyrja þingmanninn að þessu. Við erum saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það álit sem þingmaðurinn er á þar, fyrir um sex, sjö, átta vikum ég veit það ekki, það var einhvern tímann eftir áramótin, er álit sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendir til utanríkismálanefndar sem fer síðan til utanríkisráðherra og til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Og þetta var varðandi stjórnskipuleg álitaefni.

Þar var heimild til ESA að sekta lögaðila á Íslandi ef hann veitir ekki upplýsingar. Mér fannst þetta vera að fara ansi langt inn á fullveldissviðið, sagði það í nefndinni ítrekað og að ég vildi fá svör við þessu. Ég er að reyna að finna gögnin í málinu þannig að ég geti vísað nákvæmlega í hvaða mál það er, geri það síðar þá. Þarna fannst mér farið gróflega inn á fullveldið og getur farið beint á lögaðila.

Það er eitt að tvö fullvalda ríki geri samning sín á milli og búi til einhvern gerðardóm sem getur dæmt í álitaefnum um þá samninga. Það er annað að sá gerðardómur geti gengið beint að lögaðila hér á Íslandi. Mér fannst það umfram stjórnarskrá. Hvað finnst þingmanninum?