149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er notaleg nýjung að fá andsvör frá þeim sem ekki hafa verið í umræðunni allan tímann og eru eins og maður segir á málefnalegum nótum vegna þess að þeir sem hafa látið svo lítið, aðrir en þeir sem hafa staðið fyrir þessari umræðu, að koma hingað og tjá sig hafa yfirleitt gert það með þeim hætti að það er ekki á mjög málefnalegan hátt gert.

Til að svara þessu bendi ég hv. þingmanni á bls. 2 í umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings. Hann segir að innleiðing á reglugerð ESB 713/2009 í íslenskan rétt verði gerð með setningu reglugerðar, sem hefur vakið furðu margra. Bara til að ég svari, af því að tíminn er naumur, getur hv. þingmaður náttúrlega kíkt á það sem ég benti á. Þessi ágæti lögmaður segir, með leyfi forseta:

„Virðist því eiga að innleiða í íslenskan rétt mikilvæga þjóðaréttarlega skuldbindingu varðandi helstu náttúruauðlind Íslands með reglugerð en endurskoða síðar — ef sæstrengur verður lagður — lagagrundvöll þeirrar reglugerðar og jafnframt að skoða þá hvort innleiðingin samræmist stjórnarskrá Íslands. Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“

Hann heldur því fram í umsögn sinni líkt og aðrir sérfræðingar sem við höfum mjög vitnað til í þessari umræðu, að innleiðingin eins og hún er fyrirhuguð núna, fari í bága við eða þenji stjórnarskrána til hins ýtrasta. Ég er sammála hv. þingmanni þar, við höfum unnið eið að þessari stjórnarskrá og hún á að njóta vafans. (Forseti hringir.) Hún er algerlega heilög í okkar huga varðandi þetta. Síðan það að þessir stjórnskipunarlegu fyrirvarar sem settir eru halda engu.