149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vera hérna með okkur. Það er mikils metið. Þótt hv. þm. Jón Þór Ólafsson tilheyri stjórnarandstöðunni þá hefur stjórnarandstaðan haft ekki síður áhuga á innleiðingu þessa máls en stjórnarmeirihlutinn svoleiðis að það er mjög gagnlegt að fá annað sjónarhorn og vil ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Ég verð hins vegar að leiðrétta hann. Ég var ekki forsætisráðherra þegar málið um fjármálaeftirlitið sem hann spurði um var innleitt og hef efasemdir um að það hafi verið rétt að gera það. Þessi rök, ef hv. þingmaður vill líta svo á að hann hafi verið að færa rök fyrir því … (JÞÓ: Nei.) Nei, hann var ekki að færa rök fyrir því að það ætti að samþykkja þetta mál. Hann er að tala um eitthvað allt annað mál og það sem gerðist í fortíðinni. Ég skil að hv. þingmaður detti inn á þá braut vegna þess að það var auðvitað uppleggið hjá nokkrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ekki hvað síst sem reyndu á tímabili — og ég hafði reyndar mjög gaman af því, herra forseti, það var orðið svo skondið — að útskýra að þeir yrðu bara að innleiða þennan orkupakka vegna alls konar atburða úr sögunni og m.a. að ég hefði einhvern tímann sem forsætisráðherra hitt David Cameron og fallist á að skoða áhrif sæstrengs en reyndar sagt um leið að ég teldi sæstreng ekki henta Íslandi. En bara það að ég hefði sést á mynd með þessum nafna mínum breska sem hafði áhuga á sæstreng reyndu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að nota sem rök fyrir því að þingið ætti bara allt að samþykkja þetta mál. Það segir sína sögu um hversu skondið þetta er orðið allt saman. Ég heyri á hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni að hann er ekki að nota þetta sem rök. — Herra forseti. Nú er tíminn allt í einu búinn og ég er ekki búinn að svara spurningu hv. þingmanns. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég hafi gleymt mér með þessum hætti.