149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér sömuleiðis vinnubrögðunum. Hér er sagt að þetta mál hafi fengið mikla meðferð og ítarlega. Vísað er til þess að haldnir hafi verið einir níu fundir í utanríkismálanefnd. Maður á að skilja það svo að það sé meiri umfjöllun en önnur mál hafa fengið hérna og að vegna þess að þetta hafi fengið svo mikla umfjöllun, sem nemur heilum níu fundum í utanríkismálanefnd, sé óhætt að samþykkja það.

Samt er það svo að umræðan hefur dregið fram fjölda þátta, fjölda atriða sem er ósvarað. Lagalegi fyrirvarinn, sem ekki finnst, er bara eitt dæmi þar um. Annað er það að þetta mál er ekki sett í samhengi við fjórða orkupakkann sem liggur tilbúinn á 1.000 síðum í Brussel.

Það má ekki ræða þetta mál í samhengi við fyrirhugaðan dóm í Noregi sem á að kveða upp 23. september. Það má ekki ræða hvort að við sitjum uppi með það að borga fyrir þennan sæstreng (Forseti hringir.) sem þetta erlenda fyrirtæki áformar að leggja hérna í gegnum skaðabótakröfu (Forseti hringir.) eftir þeim reglum sem um þau mál gilda.

Ég hefði viljað hafa örlítið meiri tíma (Forseti hringir.) til þess að rekja þessar spurningar. Herra forseti, ég biðst velvirðingar á að hafa verið ívið of lengi í ræðustól.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir einmitt á tímamörk sem eru ein mínúta í síðari umferð.)