149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir góð og mikilvæg orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar án þess að endurtaka þau. Það er ljóst að þessi staða er komin í ákveðinn hnút. Það eru til leiðir til að höggva á svona hnúta og forseti þekkir þær töluvert betur en ég þannig að ég myndi hreinlega leggja til, eins og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefur gert margsinnis, að gert verði hlé á fundinum og boðað til fundar með þingflokksformönnum. Það væri líka fínt að fá forsætisráðherra hingað í hús vegna þess að það gæti verið þörf á einhvers konar samráði við hana, en í öllu falli að fundin verði leið til að allir geti hist áfram í sátt.

Ég segi fyrir mig að ég hlakka til að fara að vinna þau mál sem eru á dagskrá. Ég get ekki beðið eftir því að við klárum þau og það er það sem ég held að allir vilji. En við verðum að gera það eftir eðlilegri, skynsamlegri leið. Það er ekki ómálefnalegt að biðja um að hlutir séu fyrirsjáanlegir. (Forseti hringir.) Enn og aftur vona ég að forseti geti hreinlega leyst þetta vandamál.