149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég átta mig á því að það tiltekna ákvæði sem er verið að breyta, 2. töluliður 1. mgr. 14. gr., varðar höfundaréttarmál, ef um er að ræða brot gegn ákvæðum höfundalaga. Það er kannski þess vegna sem verið er að breyta þessari 14. gr. yfirleitt og reyndar fella á brott 15., 16., 17. gr. og 2. málslið 18. gr., og breyta lögunum. Þá veltir maður fyrir sér í sambandi við frumvarpið sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði um, um stafrænt kynferðisofbeldi, hvort það mætti ekki, og má mögulega enn þá þótt við séum komin í 3. umr., óska eftir því að þetta mál fari aftur til nefndar núna til að hægt sé að bæta við tölulið, 4. tölulið, sem yrði þá um vitneskju um gögn sem innihalda stafrænt ofbeldi. Ef þolandinn hefur farið og kært málið ætti þar með að vera vitneskja fyrir hendi. Ef þjónustuveitandi fjarlægir ekki án tafar slíkt efni sé viðkomandi skaðabótaskyldur. Erum við kannski núna komin með gullið tækifæri til að klára málið sem sofnaði inni í nefnd með því að setja inn slíkt ákvæði?