149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

lýðskólar.

798. mál
[15:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki á hverjum degi, þ.e. stórum og sjaldan, að við lögfestum nýtt skólaform, ég segi kannski ekki alveg nýtt skólastig, á Íslandi. Þetta eru merk tímamót. Lýðskóli svarar ríkri kröfu um aukna valkosti í menntun fyrir stóra hópa ungmenna. Það er nýlunda á Íslandi að einstaklingum standi til boða að búa og nema við skóla þar sem ekki er lögð áhersla á hefðbundinn námsárangur og prófgráður. Íslendingar hafa algjöra sérstöðu meðal nágrannalandanna hvað varðar brottfall ungmenna úr framhaldsskólum. Það er áhyggjuefni og við því þarf að bregðast og leita úrlausna. Það er margt sem bendir til þess að við verðum að laga skólakerfið okkar enn betur að ungum einstaklingum og þörfum þeirra, fækka þeim sem upplifa sig á einskismannslandi. Með lögum um lýðskóla er þess freistað að fjölga menntunarvalkostum og það er vel. Því greiði ég atkvæði með þessari lagasetningu með sérstaklega mikilli ánægju og sérstaklega mikilli sannfæringu.