149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hér sé til umræðu þetta mál um neyslurými en það er eiginlega ekki hægt að tala um það öðruvísi en að nefna aðeins málaflokkinn í heild sinni, nefnilega vímuefnamál. Þannig er mál með vexti að frá upphafi ritaðrar sögu og sennilega fyrir það hefur mannkyn notast við vímuefni, það frægasta er sennilega áfengi en áfengi er ekki eina vímuefnið sem mannkynið hefur komist í tæri við. Þau eru ótal mörg, ýmsir kaktusar, sveppir, ýmsar plöntur og þeirra er hægt að neyta á ýmsan hátt. Það er hægt að drekka þau, reykja þau og borða. Það er hægt að neyta þeirra á ýmsan hátt. Af einhverjum ástæðum, væntanlega þeim að áfengi hefur svo ríka og gamla sögu meðfram mannkynssögunni, er gerð sú sérstaka undantekning í nútímasamfélagi að áfengi sé á einhvern hátt ekki vímuefni eða á einhvern hátt ekki fíkniefni eða á einhvern hátt ekki dóp. Það viðhorf hefur endurspeglast í lagaumhverfi í það minnsta á hinum svokölluðu Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað, reyndar næstum því alls staðar ef ekki beinlínis alls staðar, að það þurfi að uppræta öll vímuefni nema áfengi. Þau skulu upprætt með löggæslu og á stundum beinlínis hernaði, herþyrlum þar sem vopnaðir einstaklinga hoppa út úr herþyrlum í svokölluðu kamúflasi eða felulituðum fötum og fara og skjóta fólk til að hafa hemil á útbreiðslu og dreifingu ólöglegra vímuefna.

Þetta ásigkomulag er stundum kallað dópstríðið. Það var háð í raun og veru að miklu leyti að frumkvæði Bandaríkjanna á seinustu öld, á seinni hlutanum upp úr 1970, 1972–1973, eitthvað svoleiðis. Það var farið í stríð við dóp, á ensku kallað „war on drugs“ og þetta er með verri pólitískum hugmyndum sem hafa komið fram á þeirri öld sem annars var mjög ríkuleg af hræðilegum hugmyndum.

Ísland er á meðal þeirra frjálslyndu lýðræðisríkja sem hafa tileinkað sér þetta viðhorf, ekki kannski beinlínis stríðshugarfarið í þeim málaflokki frekar en öðrum en hins vegar óhjákvæmilega þannig að þetta vandamál skuli leysa með löggæslu, passa það að góðu karlarnir sem eru löggurnar nái vondu körlunum sem eru dópsalarnir. Inni í miðju því stríði hafa síðan vímuefnaneytendurnir sjálfir lent.

Þeir eru á mjög undarlegum stað, þeir eru einhvern veginn bæði glæpamenn og fórnarlömb. Þetta er bæði löggæslumál og heilbrigðismál gagnvart þeim. Sú innri mótsögn hefur gert það að verkum að yfirvöld hafa misst af tækifærum, bæði til að aðstoða fórnarlömb vímuefnanna sjálfra og fórnarlömb undirheimanna sem hafa orðið til vegna lagalega ástandsins en sömuleiðis misst af tækifærum til að draga úr þeim aðgerðum sem yfirvöld eru gjörn á að fara í sem draga úr frelsi borgaranna.

Nú vill svo til að sá sem hér stendur er mjög hlynntur frelsi og það sem meira er, þeim sem hér stendur finnst mjög þreytandi að hlusta á fólk tala um að það sé hlynnt frelsi og aðhyllist frelsi en síðan þegar kemur að því að banna eitthvað er það alltaf til í að banna og þegar kemur að því að leyfa er það alltaf á bremsunni gagnvart því af að leyfa. Frelsi felur í sér að fólk geti gert mistök. Það er til áhugaverð lína úr lagi með hæstvirtum tónlistarmanni Björk Guðmundsdóttur sem sagði: „I thought I could organize freedom, how Scandinavian of me.“ Þýðingin er: Ég hélt að ég gæti skipulagt frelsið, en skandinavískt af mér.

Þetta er lína sem mér finnst að Íslendingar og Skandinavar og fleiri mættu taka til sín. Frelsið þýðir ekkert ef algjört öryggi á að fylgja. Frelsið þýðir ekkert ef algjört öryggi á að fylgja, ekki neitt, þá er það þýðingarlaust hugtak. Ég held að skilning á því skorti, sér í lagi hjá þjóðum eins og Íslendingum sem hafa í raun og veru mjög lítið í menningarlegu minni þurft að eiga við svakalega ánauð þegar kemur að grundvallarfrelsismálum. Það var vissulega þrælahald og síðan var vistarbandið lengi vel, sem er tegund af þrælahaldi, en þegar talað er um frelsi á Íslandi finnst mér yfirleitt verið að tala um sjálfstæði Íslands gagnvart Danmörku miklu frekar en frelsi einstaklings til að haga heilastarfsemi sinni úr líkama sínum í heimahúsum sínum eins og þeim einstaklingi sýnist. Þá allt í einu er frelsið orðið ægilega hættulegt vegna þess að við erum í stríði við vímuefni og í stríði við vondu dópsalana og vímuefnaneytendur eru, því miður, þrátt fyrir hið meinta frelsi þeirra dæmdir til að verða það sem kaninn kallar „collateral damage“. Ég kann hreinlega ekki íslensku þýðinguna á orðunum en það er fórnarkostnaður, skulum við segja, einhvers konar fórnarkostnaður.

Þetta mál fjallar auðvitað ekki um það allt saman í stóra samhenginu en er hins vegar afleiðing af m.a. skýrslu sem var gefin út af heilbrigðisráðherra, tilkomin vegna starfshóps sem sá sem hér stendur sat í. Sá starfshópur var settur á fót í kjölfar þingsályktunartillögu sem var lögð fram af þingflokki Pírata fyrir einhverjum árum síðan þannig að þetta er augljóslega hið besta mál en það er hins vegar í því samhengi að neyslurými er hugmynd sem er til þess fallin að koma til móts við þann hóp sem á í vandræðum vegna vímuefnaneyslu. Á sama tíma eru þessir hópar lögbrjótar. Þeir brjóta lögin, strangt til tekið ekki með því að neyta vímuefnanna, það er strangt til tekið löglegt, en þeir hafa vímuefnin í fórum sínum meðan þeir neyta þeirra þannig að augljóslega þurfa þeir að brjóta þau lög.

Það sem er svo áhugavert þegar rætt er við lögregluöflin á Íslandi er að þá verður til önnur mótsögn. Ég tek sérstaklega eftir því í viðtölum þegar ég ræði vímuefnamál og fæ ýmist að spjalla við lögreglu eða lögreglan tekur þátt í þeirri umræðu. Þá er ákveðin mótsögn. Einhvern veginn er bæði rosalega mikilvægt að neysluskammtar séu ólöglegir, það er rosalega mikilvægt, en að sama skapi er alltaf sagt að enginn fari í fangelsi, engum sé refsað fyrir neyslu eina og sér.

Virðulegi forseti. Hvers vegna er það ólöglegt ef það á ekkert að gera við þetta? Ef ekki á að eltast við neytendur, hvers vegna þarf að vera ólöglegt að hafa neysluskammta á sér? Það er engin ástæða, það getur ekki verið. Tilfellið er að við erum enn þá föst í þeirri mótsögn að við ætlum að líta á það sem heilbrigðismál og löggæslumál að vímuefnaneytendur séu bæði fórnarlömb og lögbrjótar. Sú mótsögn gerir það að verkum að við getum ekki hjálpað þeim hópi sem á í vandræðum með neyslu sína að því marki sem okkur ber skylda til að gera sem ábyrgum samfélagsþegnum og sér í lagi sem löggjafa.

Annað sem gleymist í þeirri umræðu allri, kannski eðlilega, en því miður, eru vímuefnaneytendur sem eiga ekki í vandræðum með neyslu sína. Ég held að þaðan komi mótsögnin í raun og veru. Ég held að fólk skilji almennt að fólk sem er mjög langt leitt af erfiðri fíkn sé fórnarlömb aðstæðna sinna, það sé komið inn í aðstæður sem það kemst ekki út úr, það fær ekki hjálp og það ræður ekki við eigin vilja að einhverju leyti. Án þess að vilja fara út í alla læknisfræðina og heimspekin á bak við fíkn, það furðulega fyrirbæri, held ég að hugmyndin um neytandann sem reykir hass eða sniffar kókaín eða eitthvað því um líkt og á ekki í neinum vandræðum með það, tollir í vinnu eða skóla eða hverju sem er, á ekki í neinum vandræðum með fjölskyldu sína eða vini, sé óvinur samfélagsins. Ég held að það sé sá aðili sem samfélagið er svo reitt út í. Það eru vímuefnaneytendur sem eru ekki búnir að vinna sér inn fyrirgefningu samfélagsins með því að leggja líf sitt í rúst og jafnvel annarra. Út úr því held ég að komi sú mótsögn og misskilningur um að við getum haft þetta löggæsluatriði og heilbrigðisatriði á sama tíma, að vímuefnaneytendur geti verið lögbrjótar og fórnarlömb á sama tíma. Á einhverjum tímapunkti þurfum við að fara að ræða það af meiri alvöru og í minna samhengi við það að allir vímuefnaneytendur séu sjálfkrafa fórnarlömb, bara það að vímuefnaneytendur gera ekki sjálfkrafa á hlut neins. Það kemur samfélaginu ekki við að einhver heima hjá sér sniffi kókaín eða reyki gras eða hass. Það kemur samfélaginu ekki við.

Ég hygg að hið háa Alþingi sé ekki alveg reiðubúið í þá umræðu enda frelsishugmyndin á Íslandi jafn klikkuð og ég lýsti áðan með ágætum söngtexta hæstvirts tónlistarmanns Bjarkar Guðmundsdóttur. Þegar allt kemur til alls þurfum við að fara út í það hvernig við ætlum að líta á þetta frelsi. Ætlum við að aðhyllast frelsi eða ekki? Við lendum þar á endanum.

Núna erum við sem betur fer á þeim stað að við getum aðeins einbeitt okkur að þeim sem eru sannanlega fórnarlömb og þeim sem allir, í það minnsta í orði, þykjast vilja hjálpa. Þá kemur svo skýrt fram hversu galið það er að refsa þessu fólki. Þar er það augljóst og þarf ekkert miklu meira en að hugsa aðeins út í það til að komast að þeirri niðurstöðu nema maður sé beinlínis á móti fólki sem á við vandamál að stríða og vilji fólki beinlínis illt fyrir það að eiga við vandamál að stríða. Ég held að reiðin beinist ekki að þeim hópi í raun og veru í samfélaginu. Ég held að hún beinist gagnvart þeim hópi sem kemst upp með það að nota önnur vímuefni, annað dóp en áfengi. Þetta vil ég reyndar meina að sé sambærilegt við ágreining milli trúarbragða. Það er allt í lagi að vera trúaður svo lengi sem það eru réttu trúarbrögðin.

Að öðru leyti er fólk alveg reiðubúið að viðurkenna skaðsemina af völdum trúarbragða og að sama leyti er fólk alveg reiðubúið að viðurkenna skaðsemi af völdum vímuefna svo lengi sem það er ekki rætt um skaðsemi áfengis nema auðvitað innan þess samhengis að auðvitað sé hægt að nota það í hófi. Auðvitað á að vera löglegt að selja það, auðvitað og augljóslega. Það eru ekki allir sem nota áfengi einhverjar fyllibyttur, ekki allir sem nota áfengi leggja líf sitt í rúst. Það eru ekki allir sem neyta áfengis sem deyja eða missa vinnuna. En veistu hvað, virðulegi forseti? Sumir sem neyta áfengis rústa lífi sínu, deyja, verða fíkninni að bráð, leggja fjölskyldulíf sitt og vinnu í rúst. Það eru ansi margir reyndar en af einhverjum ástæðum má aldrei setja það í samhengi við ólöglegu vímuefnin. Það fer í taugarnar á mér, virðulegi forseti, að talað sé um áfengi og vímuefni. Nei, nei, nei, áfengi er jafn mikið vímuefni og hvert annað. Það er jafn mikið fíkniefni og jafn mikið dóp. Ef kókaíni er dóp er áfengi er dóp. Það er ekki hægt að hafa þetta öðruvísi, alveg eins og ef við ætlum að kalla islam trúarbrögð eða gyðingdóm trúarbrögð köllum við kristni trúarbrögð. Það er ekki hægt að flokka þau eftir því hvort maður persónulega vilji geta notið þeirra eða ekki eða stundað þau eða ekki. Í því felst hræsni, virðulegi forseti, ekki meðvituð en það er hræsni.

Þess vegna finnst mér alveg þess virði fyrir fólk að velta fyrir sér hvernig því lítist á lagafyrirkomulag sem setti áfengi undir sama hatt og t.d. kannabisefni sem að mínu viti er mun vægara vímuefni að langflestu leyti. Þau eru öðruvísi og hafa ólík áhrif en ef ég velti fyrir mér verstu hasshausunum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina og ber þá saman við verstu fyllibytturnar sem ég hef kynnst í gegnum tíðina er samanburðurinn mjög skýr. Ég veit alveg í hverju ég vil miklu síður sjálfur lenda eða að fólk sem mér þykir vænt um lendi í. Ég vil miklu síður að það lendi í áfenginu en um leið og sá samanburður er dreginn upp gerist það oft að fólk vill ekki fara út í þann samanburð, auðvitað ekki vegna þess að hann gerir augljósa hræsnina sem felst í núgildandi löggjöf og viðhorfum samfélagsins og löggjafans til vímuefnamála almennt, þá ótrúlegu hræsni, þetta ótrúlega skilningsleysi gagnvart því að fólk vilji hugsanlega nota annað vímuefni en það sem hefur verið notað seinustu árþúsundin opinberlega og í ritaðri sögu, að mestu leyti. Það er eina ástæðan fyrir því að áfengi er umborið en hin ekki. Það er menningarleg staða áfengis, það er það eina. Það er menningarleg staða þess, það er sú staðreynd að valdhafar vilja nota áfengi. Valdhafar skilja skemmtilegu sögurnar í gamla daga þegar þeir fengu sér aðeins of mikið í tána og sögðu skemmtilegur sögur og gerðu eitthvað fyndið og heimskulegt á sínum yngri árum, hugsa til þess með hlýhug. Það var gaman að þessu fylliríi, ég fór og reyndi við ranga stelpu og svo kemur einhver skemmtileg saga út úr því eða hvaðeina og auðvitað stundum harmsögur. Þegar kemur að ólöglegum vímuefnum eru það bara harmsögur vegna þess að valdhöfum finnst ekkert mikilvægt að reykja gras, þeim finnst aðeins mikilvægt að drekka áfengi og þess vegna er áfengi löglegt og ekki kannabisefni. Það er eina ástæðan fyrir því að áfengi er löglegt og ekki kannabisefni, eina ástæðan, það er menningarleg og söguleg staða þess.

Ég kemst ekki hjá því að nefna þetta, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst mikilvægt að það heyrist í pontu þegar tækifærin gefast. Þetta mál eins og fleiri, t.d. það mikilvæga mál sem ég vona að komi fram sem fyrst frá hæstv. heilbrigðisráðherra um að hætta að refsa vímuefnaneytendum, eru öll í samhengi við grundvallarviðhorf samfélagsins og löggjafans til frelsis og hvernig það lítur á fólk sem bregður út af vananum og notar vímuefni sem eru ekki hefðbundin í íslensku samfélagi og hvernig viðhorfin eru gagnvart fólki sem síðan fer sér að voða.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira í bili en fagna því mjög aftur að þetta mál sé komið fram og hlakka til að fá fleiri slík fram og hvet hv. þingmenn til að taka virkan þátt í umræðunni. Ég veit að hún er ekkert endilega alltaf skemmtileg og hún er ekki endilega þannig að hægt sé að ræða hana, þ.e. hún er ekki endilega þannig að þingmenn sjái sér fært að segja hlutina sem eru þó tiltölulega augljósir þegar kemur að t.d. frelsi og muninum á skaðsemi vímuefna.

Að lokum nefni ég að það eru til svokallaðar dipló leiðir og síðan ekki svo dipló leiðir til að orða hlutina og þannig finnst mér áhugavert að fullyrða á kannski fræðilegri hátt að löggjöfin sé ekki hönnuð með tilliti til þess hversu skaðlegt vímuefni er. Ég segi þetta og það er enginn sem hristir höfuðið, enginn sem hváir, þarf kannski aðeins að melta setninguna, en ef ég segi að áfengi sé miklu hættulegra en nokkur ólögleg vímuefni fær fólk smástuð. Ég var reyndar að segja nákvæmlega það sama. Það er umræðan sem ég held að hv. þingmenn óttist og að samfélagið sé ekki endilega alveg reiðubúið í en að mínu mati er það tilfellið, mjög bersýnilega svo. Ég vísa í rannsóknir á þessum vímuefnum því til stuðnings.

Eins og ég sagði fyrir örlitlum málalengingum síðan ætlaði ég ekki að lengja umræðuna og ætla að reyna að standa við það héðan af en fagna málinu og hlakka til að fá fleiri úr sömu átt.