149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

úrskurðarnefndir á sviði neytendamála.

649. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála. Þetta er stjórnarfrumvarp frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra með því yfirlýsta markmiði að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við lausn ágreinings við seljendur og setja í því skyni umgjörð um lausn deilumála utan dómstóla. Þetta er umfangsmikið mál og lýtur að alls kyns innleiðingum og breytingum á lögum vítt og breitt.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Tryggva Axelsson, Þórunni Önnu Árnadóttur og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Heiðrúnu Björk Gísladóttur fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka fjármálafyrirtækja, Breka Karlsson, Brynhildi Pétursdóttur og Ívar Halldórsson frá Neytendasamtökunum og Grím Sigurðarson frá laganefnd Lögmannafélags Íslands.

Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, laganefnd Lögmannafélags Íslands, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um lausn deilumála utan dómstóla. Með því er lagt til að innleidd verði tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB, um lausn deilumála utan dómstóla, og reglugerð (ESB) nr. 524/2013, um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á netinu. Auk þess felur frumvarpið í sér tillögur vegna heildarendurskoðunar á lagaúrræðum til lausnar einkaréttarlegum ágreiningi á sviði neytendamála.

Það er skemmst frá því að segja að umsagnaraðilar voru almennt fylgjandi efni frumvarpsins og töldu það fela í sér mikilvægt skref í átt til aukinnar neytendaverndar.

Ég ætla ekki að fara í löngu máli yfir álitið en ég vísa til þingskjalsins og ætla ekki að fara í þetta langa og ítarlega nefndarálit öðruvísi en að vísa til þess.

Undir lok þess segir að hvað varðar þá neytendavernd vegna svokallaðra gerðarsamninga hafi ráðuneytið bent nefndinni á að í ljósi þeirra breytinga sem efni frumvarpsins felur í sér á fyrirkomulagi við úrlausn ágreinings utan dómstóla sé brýnt að tryggja að neytendur séu ekki hindraðir með óeðlilegum samningsskilmálum frá því að leita til viðeigandi úrskurðaraðila eða að þeim sé með öðrum aðferðum gert erfitt fyrir að leita réttar síns. Hér á landi hefur ekki tíðkast að aðilar að neytendasamningum semji réttarágreining undan lögsögu dómstóla eða úrskurðaraðila. Í gildandi lögum um samningsbundna gerðardóma séu hins vegar ekki sett takmörk á gerðarsamninga af því tagi. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum hafi verið sett sérstök lagaákvæði til að vernda neytendur gegn gerðarsamningum um ágreining sem síðar kann að koma upp í réttarsambandi neytanda og seljanda.

Verði frumvarpið að lögum telur ráðuneytið sérstaka þörf á að neytendur verði verndaðir gegn samningsskilmálum um að ágreining skuli leggja í gerð. Jafnframt sé æskilegt í þágu skýrleika og vissu að sérstakt lagaákvæði verði sett um þessa tegund samningsskilmála. Ráðuneytið lagði því til breytingu í samráði við dómsmálaráðuneytið. Meiri hlutinn er sammála ráðuneytinu í þessum efnum og leggur því til viðeigandi breytingar.

Að öðru leyti telur meiri hlutinn frumvarpið vera framfaraskref fyrir íslenska neytendur og til þess fallið að styrkja stöðu þeirra og réttindi í ágreiningsmálum sínum við seljendur.

Til viðbótar við þær breytingar sem hafa verið útskýrðar í nefndarálitinu eru gerðar nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis. Þær breytingar allar fylgja í sérstöku þingskjali sem ég ætla ekki að fjölyrða um, það liggur einfaldlega fyrir hér sem fylgigagn málsins. Með þeim breytingum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt. Undir álitið rita sá sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður og framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.