149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Vilji nefndarinnar var að þeir sem væru komnir lengst í umsóknarferli sínu gætu farið inn á gömlu lögunum. Fyrir nefndina kom lögfræðingur úr Háskóla Íslands sem hafði til skoðunar hvort ríkið væri skaðabótaskylt ef allar umsóknir sem væru inni í kerfinu væru núllaðar út þegar þau lög tækju gildi sem við erum að fjalla um. Niðurstaða hans varð sú að ríkið væri ekki skaðabótaskylt. Út frá því fór af stað vinna hjá nefndinni við að skoða hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Vissulega voru skiptar skoðanir innan nefndarinnar um hvort jafnvel ætti að núlla allt út eða ekki eða fara einhvern milliveg. Í okkar skoðun varð sú niðurstaða að gæta meðalhófs. Umsóknir sem hafa verið lagðar inn og hafa ekki lokið efnislegri umfjöllun eru ekki afgreiddar sem slíkar og ekki verið að tala um að það séu einhver afturvirk lög sem nái utan um þær. Umsóknir sem eru ekki enn þá í vinnslu í kerfinu eru bara ekki tilbúnar til þess að verða afgreiddar og hægt að byggja á og þess vegna er ekkert ólöglegt að ný lög gildi um þær umsóknir sem hafa ekki verið fullkláraðir í kerfinu. Það er ekkert óeðlilegt við það. Með það álit þessa lögfræðings að ríkið væri ekki skaðabótaskyld þótt allt væri núllað út frá og með þeim degi sem þessi lög tækju gildi hefur nefndin verið að skoða hvað við getum gert mjög málefnalega og hefur framsögumaður málsins fyrst og fremst verið að skoða það.

Ég kem kannski betur inn á það í öðru andsvari mínu.