149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég ítreka það og spyr hv. þingmann hvort henni finnist eðlilegt að meðflutningsmönnum málsins sem eru á nefndarálitinu með meiri hlutanum sé haldið í myrkrinu með það hvaða breytingartillögu meiri hlutinn er að vinna með? Er eðlilegt að þeim séu ekki sýnd gögnin, sest niður með þeim og þeim kynntar þær breytingar sem verið er að fjalla um?

Hv. þingmaður gaf til kynna um hvað verið væri að fjalla. Skildi ég þingmanninn rétt, að ein hugmyndin sé mögulega sú að einhver hópur fyrirtækja sem hefur sótt um leyfi eða er í ferli fái afgreiðslu samkvæmt gömlu lögunum en aðrir ekki? Á þá að miða við einhvern ákveðinn tímapunkt, á að miða við þá dagsetningu hvenær sótt er um, á að miða við hvaða umfjöllun viðkomandi umsókn hefur þegar fengið í ferlinu? Það þarf líka að huga að jafnræði þeirra sem hafa sótt þarna um. Auðvitað er alveg klárt að ekki er ég löglærður maður og það getur vel verið að lögfræðingurinn sem hv. þingmaður vitnaði til að hafi komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekkert að virða eða taka tillit til þeirra umsókna sem byggðu á gömlu lögunum heldur verði þeim vísað í þessi nýju lög. Mér finnst það hins vegar mjög sérstakt, þótt ekki væri nema út af því prinsippi að menn sitji við sama borð og sæki um í góðri trú, leggi út í mikinn kostnað við rannsóknir og slíkt.

Grunnspurningarnar eru þessar: Finnst hv. þingmanni eðlilegt að halda félögum sínum sem eru á nefndarálitinu utan við upplýsingarnar, að þeim séu ekki kynntar þær, að þeir séu algjörlega í myrkrinu? Og er réttur skilningur að það eigi með einhverjum hætti að skipta þeim hópi upp sem sótt hefur um (Forseti hringir.) samkvæmt gömlu lögunum?