149. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:06]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, þ.e. innflutningi búfjárafurða. Ég ætla aðeins að stikla á stóru um þetta ágæta mál en láta vera að fara í þingsályktunartillöguna sem er næst á dagskrá, þær mótvægisaðgerðir sem fara á í.

Til að byrja með ætla ég að fara í smásöguskýringar. Árið 2002 tók ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins gildi. Árið 2005 var samþykkt að hefja viðræður um mögulega upptöku á matvælalöggjöf ESB. Árið 2006 samþykkti ríkisstjórnin drög að samkomulagi um upptöku á matvælalöggjöfinni. Sumarið 2007 náðist endanlegt samkomulag um að matvælalöggjöfin yrði tekin upp í EES-samninginn og Ísland fékk 18 mánaða frest til að afnema leyfisveitingakerfið.

Um það fjallar þessi blessaði dómur sem hér um ræðir.

Árið 2008 lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvörp um innleiðingu á matvælalöggjöf sem á að afnema þannig leyfisveitingakerfið en þau urðu ekki að lögum. Árið 2007 sömdu menn um að heimila ekki innflutning á lifandi dýrum til landsins vegna sérstöðu landsins en fóru þá leið sem við erum að fjalla um núna, þ.e. að koma á frystiskyldu. Nú hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands dæmt að hún sé ólögleg.

Árið 2011 kvörtuðu Samtök verslunar og þjónustu til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna þessa leyfisveitingakerfis. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2017 að íslenska leyfisveitingakerfið væri ekki í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefði gert samkvæmt EES-samningnum.

Árið 2018 ætti flestum að vera kunnugt um hvað gerðist. Hæstiréttur dæmdi í október að leyfisveitingakerfið væri ekki í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningi og dæmdi íslenska ríkið bótaskylt sem stöðvaði innflutning á ófrosnu kjöti. Vitanlega þurfa menn að bregðast við og þótt fyrr hefði verið. Það er verið að gera nú með því frumvarpi sem við fjöllum hér um og á eftir komum við til með að fjalla um þingsályktunartillögu þar sem farið er yfir mótvægisaðgerðir.

Það hefur komið fram í ræðum um þetta mál að vissulega snertir það grunnatvinnugrein landsins sem er íslenskur landbúnaður, þ.e. íslenska matvælaframleiðslu, en við verðum líka að hafa í huga að þótt við séum eyja getum við ekki alltaf bara lokað á allt. Við tökum þátt í alþjóðlegum viðskiptum og verðum þá að spila eftir þeim leikreglum sem þar eru settar. Þar á ég við EES-samninginn. Það er frekar ódýrt að koma hingað upp og tala um að menn eigi bara að skella í lás og þess háttar. Ég hugsa að menn hafi haft tækifæri til þess hér fyrir töluvert mörgum árum þegar menn sömdu um að banna innflutning á t.d. lifandi dýrum. Ég held að ráðamönnum þá hafi bara ekki dottið í hug að fólki dytti yfir höfuð í hug að flytja hrátt kjöt til Íslands en tímarnir breytast og menn sjá ekki allt fyrir.

Með þessu frumvarpi eru menn að mæta því.

Það skal tekið fram að sá sem hér stendur er einn af þeim sem tilheyra íslenskum landbúnaði. Ég er bóndi og hef fylgst nokkuð vel með þessu máli í gegnum tíðina. Einnig er óhætt að segja að þetta mál stóð ansi þvert í þingflokki Framsóknarflokksins og þegar það var samþykkt frá flokknum var það samþykkt með fyrirvara. Menn gerðu ákveðnar kröfur til þess hvað væri í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum á eftir og hvernig við myndum mæta þeim áskorunum sem íslenskur landbúnaður stæði frammi fyrir þegar búið væri að afnema frystiskyldu.

Í bókun sem við gerðum í þingflokki Framsóknarflokksins kemur fram krafa um að sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu, enda er það markmið EES-samningsins að tryggja sambærileg samkeppnisskilyrði, og að tryggt verði að lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla, enda er það ekki markmið EES-samningsins að staðan hér versni við innflutninginn. Síðan er fjöreggið okkar, búfjárstofnarnir. Við verðum að verja þá eins og við mögulega getum, það verður að lágmarka þá áhættu sem af þessum innflutningi getur orðið.

Þegar við tökum ófyrirséð og ný skref inn í framtíðina hræðast margir. Einfaldasta leiðin er oft að segja: Nei, nei, við gerum ekkert heldur lokum okkur af. Ég tel að í þessu máli hafi bændaforystan sýnt ákveðið frumkvæði með þeim skilaboðum sem bændur hafa komið á framfæri, þ.e. að menn eru tiltölulega óhræddir við innflutning ef fyllstu varúðar er gætt og innflutningurinn á samkeppnisgrunni við þann landbúnað sem hér er. Við þekkjum það öll að í þessu landi er stundaður fjölskyldubúskapur og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á það áðan að við erum ekki samkeppnishæf í verði þegar við keppum við verksmiðjubú.

Þróun íslensks landbúnaðar hefur í gegnum tíðina verið á þann veg að það hefur verið töluverð samþjöppun en menn hafa alltaf haft eitt að leiðarljósi og það er að varðveita gæðin í framleiðslunni. Þá skulum við horfa sérstaklega til alifugla- og svínaræktar. Þar hefur orðið gríðarleg samþjöppun, gríðarlega stór bú á okkar mælikvarða, en þar hafa menn líka náð alveg ótvíræðum árangri í baráttunni við kampýlóbakter og salmonellu. Ég leyfi mér að fullyrða að engin önnur þjóð í heimi getur státað sig af því að dreifa innlendri vöru, þ.e. alifuglum og svínakjöti, sem inniheldur ekki kampýlóbakter eða salmonellu. Menn hafa tekið stórar og miklar ákvarðanir í því máli. Það hefur kostað greinina gríðarlega mikið. Menn hafa slegið af heilu uppeldishópana sem þessi óværa hefur greinst í, þ.e. kampýlóbakter og salmonella, og henni er bara eytt.

Þar sem menn þekkja vel til erlendis eru sérstakir sjóðir sem bæta mönnum svona tjón. Þá höfum við ekki hér á landi og til þess þurfum við að horfa í framtíðinni, með þeim breyttu aðstæðum sem eru að verða hér á landi með innflutningi búfjárafurða. Við þurfum ákveðinn innstæðutryggingarsjóð og við þurfum líka að horfa til þess hvernig við ætlum að verja búfjárstofnana okkar sem eru mjög viðkvæmir.

Þeir sem hafa komið til Grænlands vita að fáir í heiminum eru jafn harðir í að verja bústofninn sinn og Grænlendingar. Þar er algjörlega óheimilt að flytja nokkuð inn. Þetta þekkjum við frá því að við fluttum þangað hrútasæði til kynbóta á þeirra sauðfé. Og af hverju er það? Það er vegna sérstöðu búfjárstofnanna, þeir eru svo viðkvæmir fyrir öllu utanaðkomandi.

Við þekkjum það einnig mjög vel hér. Sagan segir okkur að það er aldrei of varlega farið, en við tökum samt líka þátt í alþjóðlegu umhverfi og þeim leikreglum sem okkur eru skapaðar.

Nú sé ég að forseti þingsins er farinn að setja í brúnirnar til merkis um að ég sé búinn að tala of lengi. Nóg er eftir að segja þegar við fjöllum um þingsályktunartillöguna. Ég vil bara minna á að það sem verið er að gera í þessu frumvarpi sem við fjöllum um núna er fyrst og fremst að mæta dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands.

Hverjir eru það sem fóru í mál við okkur? Samtök verslunar og þjónustu. Það voru Íslendingar. Það var ekki vondi kallinn í Evrópusambandinu.