149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessari umræðu. Þingmaður biður einfaldlega um skýrslu um framkvæmd embætta sýslumanna á lögum og við rífumst og þvörgum í ræðustól um orðalagið á skýrslubeiðninni en ekki það sem mun síðan koma fram í þessari skýrslu sem verið er að biðja um, innihald hennar og þær upplýsingar sem þar koma fram, einmitt til að eiga þau orðaskipti sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir að séu vaxandi vandamál, að leggja fram beiðni um skýrslu.

Mér finnst vera vaxandi vandamál í þessum þingsal sú andstaða sem vex hástöfum í ræðustól þingsins um skýrslubeiðnir sem er eitt mikilvægasta aðhaldshlutverk þingmanna til að fá fram upplýsingar. Ég skil alls ekki þá andstöðu sem hér endurspeglast um skýrslubeiðnir, þetta hlutverk og tæki þingmanna til að fá fram upplýsingar (Forseti hringir.) frá framkvæmdarvaldinu til að eiga akkúrat upplýstar umræður um innihald skýrslnanna.

Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir minntist á (Forseti hringir.) bað ég um skýrslu til að varpa ljósi á aðkomu íslenskra stjórnvalda að leyfisveitingum vegna flutninga á hergögnum. (Forseti hringir.) Það komu fram góðar upplýsingar. Eigum við þá að taka afstöðu til (Forseti hringir.) þess sem kemur fram í skýrslunum áður en (Forseti hringir.) þær koma fram? Ég segi nei við því og ég styð þessa skýrslubeiðni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)