149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er fljótgert að svara hv. þingmanni. Hv. þingmaður nefndi ekki eitt dæmi, ekki eitt einasta, um að ég hefði snúið út úr eða lagt mönnum orð í munn, ekki eitt dæmi. Það sem ég vakti hins vegar athygli á var það sem þeir sögðu ekki. Í þessu bréfi til utanríkismálanefndar segja þeir að þeir telji lagalegu fyrirvarana hafa verið nægilega kynnta viðeigandi aðilum. Það er gott og blessað og það er ágætt, ekkert við það að athuga. En það sem þeir segja ekki er að þessir fyrirvarar hafi gildi að þjóðarétti. Ég leyfi mér að vekja athygli á því. Ég lýsi eftir því að hv. þingmaður finni orðum sínum stað en að öðrum kosti verður að líta á þau eins og hvert annað fleipur, herra forseti.