149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við komin aftur og nýbúin — og hefur eitthvað breyst? Stutta svarið er auðvitað nei, nema þá kannski að sjónarmið okkar sem viljum samþykkja þetta hafa styrkst. 19. ágúst, minnir mig, komu Stefán Már Stefánsson prófessor og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur á fund utanríkismálanefndar. Þeir birtu í kjölfar hans eftirfarandi yfirlýsingu, með leyfi:

„Eins og fram kom hjá okkur á fundi utanríkismálanefndar í dag teljum við mikilvægt að fyrirvarar Íslands, við upptöku og innleiðingu EES-gerða samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, séu settir fram með skýrum hætti, þ.e. fyrirvarar um stjórnarskrá og um forræði Íslands á lagningu sæstrengs.

Séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga.“

Það er ekki ofsögum sagt að álit þessara tveggja fræðimanna hafi verið helsta haldreipi Miðflokksins í málþófi þeirra í vor þegar reynt var að gera málið tortryggilegt. Raunar telja mörg okkar að þessir fyrirvarar séu ónauðsynlegir en ef þeir eru til þess að róa áhyggjur stjórnarandstæðinga og auðvitað almennings í landinu þjóna þeir ágætistilgangi. Það væri að æra óstöðugan að fara yfir þessa umræðu frá upphafi til enda. Hún hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og vakið mikinn áhuga þjóðarinnar sem er auðvitað hið besta mál. Það hafa hins vegar ýmis stór orð fallið sem standast ekki og málið hefur haft sundrandi áhrif hjá þjóðinni.

Það sem kannski er sérstakt við þetta mál er að einna mest hefur verið rætt um það sem alls ekkert er í þessum pökkum. Hins vegar er eftirtektarvert að þeir sem hafa tjáð sig, a.m.k. flestir, bæði með og á móti, eru sammála um nokkur atriði, í fyrsta lagi að það sé grundvallaratriði að auðlindir séu þjóðareign, í öðru lagi að það eigi að vernda íslenskar orkuauðlindir, í þriðja lagi að almenningur eigi að njóta ágóðans af auðlindunum, í fjórða lagi að nýting auðlindanna eigi að byggja á sjálfbærri þróun og í fimmta lagi að það sé eðlilegt að fyrirtæki sem eru nú í opinberri eigu og nýta stóran hluta af okkar orkuauðlindum verði þar áfram. Mér finnst ánægjulegt að það hafi þó a.m.k. skapast þverpólitísk sátt um þetta sem mörg okkar, m.a. við í Samfylkingunni, hafa haldið fram.

Þetta leiðir hins vegar hugann að því að það er nauðsynlegt að stíga næstu skref og tryggja að það sé hafið yfir allan vafa hver á auðlindirnar. Það gerum við auðvitað best með því að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá og jafnframt þurfum við, t.d. í framhaldi af þessari umræðu, að tryggja framsalsákvæði sem útlistar nákvæmlega með hvaða hætti Alþingi er heimilt að taka þátt í nauðsynlegu fjölþjóðlegu samstarfi. Mér finnst raunar líka býsna merkilegt í ljósi þessa að þeir sem harðast hafa barist gegn þessu máli á þingi hafa líka lagst harðast gegn breytingum á stjórnarskrá. En góð umræða um þetta mál er út af fyrir sig nauðsynleg og ég geri ekki lítið úr áhyggjum almennings og það er sjálfsögð kurteisi að nálgast það með virðingu. Hins vegar verður líka að gera þá kröfu að þingmenn halli ekki réttu máli. Sumt af því sem hér hefur verið til umræðu mun ekki hafa nein áhrif á Ísland enda erum við ekki beintengd evrópskum raforkumarkaði með neinum streng. Það sem snertir okkur hins vegar og er mikilvægt lýtur m.a. að kröfu um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja, ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits og auknar kröfur um neytendavernd og upplýsingagjöf. Þetta og margt fleira er nánar útlistað í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar.

Herra forseti. Í þessu samhengi öllu held ég að það sé alveg ágætt að vitna aðeins í orð Hilmars Gunnlaugssonar, lögmanns og sérfræðings í orkurétti, með leyfi forseta:

„Það sem er ekki í þriðja orkupakkanum: Það er ekki verið að taka ákvörðun um að leggja sæstreng, ekki verið að taka ákvörðun um að framselja vald til ACER, það er ekki verið að taka ákvörðun um að aðrir en íslensk stjórnvöld geti tekið ákvarðanir um orkumál eða heft forræði Íslendinga á orkumálum, það er ekki verið að taka ákvörðun um að selja eða einkavæða raforkufyrirtæki, það er ekki verið að brjóta stjórnarskrá, það er ekki verið að innleiða ákvæði sem leiða til hærra raforkuverðs og það verður ekki hægt að þvinga menn til að leggja sæstreng.“

Svo mörg voru þau orð. Reyndar klykkti Hilmar út með því að segja að hann teldi beinlínis verða erfiðara að skylda Ísland til að leggja sæstreng með samþykktan orkupakka en ella.

Margir aðrir sérfræðingar hafa líka komið fyrir nefndina og sagt að áhyggjur væru óþarfar af spurningum er varða stjórnarskrárbrot, ólöglegt framsal, sæstrengsskyldu og fleira. Nægir þar að nefna Skúla Magnússon, Davíð Þór Björgvinsson, Margréti Einarsdóttur og Bjarna Má Magnússon. Raunar hafa flestir, ef ekki allir, sem hafa tjáð sig viðurkennt að við missum ekki yfirráð yfir auðlindunum og ekki verði hægt að þvinga okkur til að leggja sæstreng en samt halda mörg áfram að dylgja um að það verði þrátt fyrir allt líklegasta niðurstaðan og allt fari á vonarvöl. Það er auðvitað þekkt og árangursrík aðferð að ala á ótta og tortryggni en það gerir hana ekki neitt merkilegra fyrir vikið.

Ísland beitti sér fyrir ýmsum undanþágum og aðlögunum vegna aðstæðna hér á landi á sínum tíma, öðrum ekki. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er gerð grein fyrir undanþágum og aðlögunum. Það snertir m.a. jarðgas en einnig fékkst undanþága frá ákvæðum um aðgreiningu flutningskerfa frá öðrum rekstri á raforkumarkaði. Það er einnig heimilt að sækja um undanþágur frá ákvæðum sem varða aðskilnað dreififyrirtækja, aðgengi að flutnings- og dreifikerfum, markaðsopnun og gagnkvæmni ef íslensk stjórnvöld geta sýnt fram á vandkvæði við að reka raforkukerfi. Síðast en ekki síst var samið um tveggja stoða aðlögun vegna valdheimilda ACER í tengslum við ágreining eftirlitsaðila um orkuflutning yfir landamæri.

Sumir af þeim sem telja að nú eigi að sækja um frekari undanþágur og neita að innleiða gerðirnar af þeim sökum sátu samt sem ráðherrar á sínum tíma þegar málið var rætt og undirbúið og verða bara að horfast í augu við sjálfa sig og það. Ég er alls ekki að halda því fram og ég er sannfærður um að það var hvorki af hirðuleysi né andvaraleysi heldur fullkomlega meðvituð afstaða á þeim tíma. Um það vitna margar blaðagreinar um málið. Þar fyrir utan er það að ætla sér að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar einfaldlega óráð eins og komið hefur fram hjá mörgum fyrir nefndinni. Það mun alltaf verða litið til tímalínunnar, hvað við erum búin að gera á fyrri stigum þegar kröfur Íslands verða metnar og þar er sagan okkar okkur kannski ekkert í hag í slíku máli. Mig grunar þess vegna að tilgangur þeirra sem leggjast nú harðast gegn innleiðingunni sé fyrst og fremst að reyna að grafa undan EES-samningnum og fjölþjóðlegri samvinnu.

Ég óttast hvoruga umræðuna. Vissulega er heimurinn sífellt að breytast og við þurfum alltaf að vera á varðbergi og gæta hagsmuna okkar um leið og við öxlum sameiginlega ábyrgð. En í fyrsta lagi fullyrði ég að EES-samningurinn er eitt stærsta heillaskref sem við höfum stigið. Við breyttumst í 500 milljóna manna markað. Hann hefur búið til vöxt og störf, varið réttindi og hagsmuni, öryggi, hann verndar umhverfi okkar og fjárfestir í framtíðinni. Við höfum öðlast frelsi til að ferðast, búa, læra og vinna hvar sem er í Evrópu. Líf okkar hefur auðgast með þessum samningi. Sjóndeildarhringurinn hefur stækkað og samfélagsgerðin er að styrkjast. Þessi frjálsa för hefur líka leitt til sveigjanlegri vinnumarkaðar og tölur sýna svart á hvítu að erlent launafólk sem hingað hefur komið eftir hrun á verulegan þátt í okkar velgengni.

Í öðru lagi stöndum við frammi fyrir risastórum alþjóðlegum áskorunum vegna fátæktar, styrjalda og hamfarahlýnunar. Það er enginn vinnandi vegur að sigrast á þessu nema með miklu fjölþjóðlegu samstarfi. Þar að auki erum við stödd í miðri stafrænni tæknibyltingu sem unir ekkert hreppamörkum eða landamærum í sama mæli og áður og heimurinn er einfaldlega að breytast. Við getum ekki unað því að þetta mál sé notað í pólitískum tilgangi til að slá ryki í augu fólks. Það þarf að sporna gegn málflutningi sem byggir á afbökun staðreynda, hálfsannleik og jafnvel ósannindum.