149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í dag hefur umræðan í þingsal verið ágæt. Það hefur verið fróðlegt að sjá og heyra ráðherra ríkisstjórnarinnar flytja sína fyrstu ræðu um orkupakka þrjú. Annað slagið hafa svo stjórnarliðar rætt það að ekkert sé í orkupakka þrjú um lagningu sæstrengs, að okkur verði ekki skylt að leggja sæstreng frá Íslandi, og ég skil ekki hvernig stjórnarþingmönnum dettur í hug að eyða tíma dagsins í að ræða þá rökleysu. Við þingmenn Miðflokksins vitum mætavel að ekkert er fjallað um skyldur Íslands til að leggja sæstreng frá landinu. Staðreyndin er sú að þegar við samþykkjum orkupakkann erum við orðin hluti af orkumarkaði Evrópusambandsins og lagning sæstrengs verður því ákjósanlegri fyrir þá aðila sem undanfarin ár hafa unnið ötullega að því að leggja grunninn að lagningu slíkra sæstrengja.

Í sumar hefur mikil umræða átt sér stað um sæstreng og margsinnis hefur ríkisstjórnin verið vöruð við því að lögfræðilega geti komið upp sú staða að íslenska ríkið verði neytt til að leyfa lagningu sæstrengs óski einkaaðili eftir því að leggja hann. Þarna vil ég aðeins staldra við þar sem í orkupakkanum er að finna eftirfarandi texta, með leyfi forseta:

„Þróun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku, með net sem tengt er um allt bandalagið, skal vera eitt af helstu markmiðum þessarar tilskipunar …“

Því ætti hverju mannsbarni að vera ljóst að samþykki Ísland reglugerð með þessum inngangsorðum sýnir landið vilja til að vinna eftir þeim. Það myndi því teljast undarlegt ef ríkisstjórnin ætlar að standa í vegi fyrir hverjum þeim sem hyggst leggja sæstreng og um leið sitt lóð á vogarskálarnar til að tengja bandalagið sem best. Ef það er ætlunin, hvers vegna á þá að samþykkja þriðja orkupakka ESB til að byrja með?

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari bendir á eftirfarandi því að hann hefur haft áhyggjur af því að Ísland gæti átt yfir höfði sér samningsbrotamál og í kjölfarið verið skyldað til að heimila sæstreng, svo ég vitni í hans eigin orð, með leyfi forseta:

„Bann við lagningu sæstrengs eða tilraunir til að leggja stein í götu slíks verkefnis gætu talist til ólögmætra viðskiptahindrana og hagsmunaaðilar gætu átt rétt á skaðabótum neiti Alþingi eða íslensk stjórnvöld þeim um leyfi til lagningar sæstrengs. Skaðabótakröfur í slíku máli gætu hlaupið á milljörðum.“

Þótt lagahluti orkupakkans hafi verið mikið til umfjöllunar og hver á eftir öðrum hafi tekið þátt í lögfræðibardaganum snýst orkupakkinn ekki síður um fólkið í landinu, um þjóðina sem kemur til með að súpa seyðið af innleiðingu hans og þeim afleiðingum sem af henni verða. Það er þungbært fyrir íslenska ríkið að greiða marga milljarða í skaðabótakröfur og þær skaðabætur munu vissulega falla á herðar þegna landsins, annaðhvort í gegnum skatta eða niðurskurð.

Við megum hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins og sú höfnun er í samræmi við EES-samninginn sem við erum aðilar að. Mótstaða við þriðja orkupakka ESB snýst því ekki um atlögu gegn EES-samningnum heldur um andstöðu við innihald orkupakkans sjálfs. Það að halda öðru fram er óheiðarlegt. Ætla má að þegar ríki geri með sér samning sé ekkert athugavert við að þau ríki nýti sér ákvæði þess samnings. Af hverju ætti nokkuð að vera athugavert við að nýta ákvæði þessa samnings?