150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Hér stend ég í upphafi þriðja löggjafarþings frá því að Flokkur fólksins var kjörinn á Alþingi í ykkar umboði. Hvað hefur breyst? Hvað hefur áorkast? Hvað hefur gerst hjá þeim þjóðfélagshópum sem Flokkur fólksins var stofnaður utan um til þess að reyna að berjast fyrir og til að reyna að hjálpa út úr fátækt? Ég verð að viðurkenna að það er nánast ekki neitt.

Það er í rauninni sárara en tárum taki að standa hér og hrópa húrra fyrir skattalækkun upp á rétt um 10.000 kr. á mánuði eftir tvö ár á sama tíma og landsmönnum er boðið upp á að horfa upp á það að forstjórar ríkisfyrirtækja, bankastjórar og aðrir hafa skrapað til sín vel yfir milljón í launahækkun á mánuði. En jú, það er allt í lagi að þeir sem fá útborgað 242.000 kr. núna eftir skatta geti státað af því að hafa það 252.000 eftir tvö ár þegar þessi frábæra velferðarstjórn hefur skilað því til fátækra sem hún boðar hér og nú.

Að hugsa sér að yfir 10% barna skuli enn líða skort, að hér skuli vera biðlistar. Hér er gamalt fólk sem hefur ekki efni á því að leita sér lækninga, kaupa sér lyf og stór hluti af fátækum börnum lifir hálfan mánuðinn á núðlum á 25 kall pakkann. Er það heilbrigðið? Er það frelsið og heilbrigðið sem við erum að bjóða unga fólkinu okkar, litlu börnunum okkar? Já, það er nákvæmlega það sem það er. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur grímulaust komið á því kerfi sem við búum við í dag og hefur algerlega kinnroðalaust haldið við þeirri fátækt sem stór hluti, allt of stór hluti landsmanna býr við í dag.

Er eitthvað til ráða? Já, auðvitað er hægt að gera eitthvað. Auðvitað ætti að vera vilji til verka hér. Auðvitað er hægt að gera alla skapaða hluti, bara ef við stöndum saman og framkvæmum í stað þess að tala hér og þykjast vera rosalega góð.

Flokkur fólksins hefur lausnir. Ég hef margboðað þær. Flokkur fólksins hefur komið með sínar hugmyndir, sumar hafa gengið eftir, utan um aðrar hefur verið tekið hér í sameiningu af okkur öllum. Það er vel. En hvers vegna erum við enn að skattleggja fátækt? Hvers vegna erum við enn að forgangsraða fjármunum þannig að stór hluti fólks líður skort?

Hagstofan gaf út skýrslu í byrjun ágúst sem fjallaði um stöðu launafólks á markaði, á íslenskum launamarkaði. Hver er staðan? Vitið þið það? Vitið þið, kæru landsmenn, að staðan er sú að um 50% allra íslenskra launþega eru með 441.000 kr. á mánuði eða minna fyrir skatt, takið eftir. Fá útborgaðar rúmar 300.000 kr. Hvað er stór hluti af þessu fólki fjölskyldufólk með börn? Hvað geta þessir foreldrar og þessir launþegar veitt börnum sínum? Kannski það sem hæstv. ráðherra iðnaðar og nýsköpunar boðaði hér áðan, frelsi til þess að njóta sín sem einstaklingar, frelsi til að skara fram úr í íþróttum, frelsi til að vera þau sjálf? Nei, þau búa ekki við neitt frelsi, þau búa í fjötrum fátæktar og það er það sem hv. þingheimur virðist aldrei ætla að geta skilið. Það er ekki flóknara en það.

Er það ekki okkar að reyna að jafna kjörin? Er ekki alltaf verið að tala um jöfnuð, hagsæld, frábært að búa á Íslandi? Hvað er að marka það nema fyrir suma fáa útvalda eins og okkur sem vorum kjörin hér? Í góðri trú fara kjósendur í kjörklefann og hlusta á okkur fyrir hverja einustu kosningabaráttu þar sem við lofum öllu fögru. Það vantar ekki listann yfir það hvernig við ætlum að koma öllu í lag. Hverjar eru svo efndirnar? Og kæru landsmenn, það sem verra er: Hvernig stendur á þessu eilífa gullfiskaminni að í hvert einasta skipti þá skuluð þið fara og kjósa yfir ykkur það sama á sama tíma og þið eruð sár og fúl yfir því að ekki skyldi hafa verið staðið við loforðin? Hvernig stendur á því?

Það er kominn tími til að við vinnum saman. Það er kominn tími til að gefa Flokki fólksins tækifæri á því að standa við stóru orðin. Við erum með lausnir, við erum með fjármagn til þess að hafa lágmarkslaun í landinu í 350.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Við erum með lausnir til að enginn lífeyrisþegi sem hefur úr engu öðru að moða en almannatryggingum hafi undir 300.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Við viljum ekki skattleggja fátækt.

Og hvernig ætlum við að fjármagna það? Við ætlum að nýta lífeyrissjóðakerfi landsmanna sem á yfir 5.000 milljarða, lífeyrissjóðakerfi sem er ekki skattlagt nema við útborgun. Ef við munum skattleggja iðngreiðslurnar okkar í lífeyriskerfið við innborgun þá höfum við úr að moða meira en 70 milljörðum kr. á ári í okkar samneyslu í ríkissjóð. Hafa ekki sveitarfélögin líka þörf á því að þetta skattfé verði nýtt svona og á þessum tíma, ekki síður en ríkisvaldið? Jú, nákvæmlega. Hvað getum við gert með þessa peninga? Hvað getum við gert í því að afnema í enn þá stærri skrefum þessar skerðingar, það okur og þær þvinganir sem við erum alltaf að klína á landsmenn? Við getum gert allt í því en það virðist vera ómögulegt í þessu niðurnjörvaða kerfi að stíga út fyrir boxið.

Hvernig er með hjúkrunarheimilisuppbygginguna? Hvernig stendur nú aftur heilbrigðiskerfið okkar, kæru landsmenn? Meira að segja sú sem hér stendur neyddist til þess á heimilinu sínu í fyrradag að hringja í sjúkrabíl. Það var svo sem ekki fyrir mig, annars stæði ég nú varla hér, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þó að ég búi í Grafarholtinu þá var sjúkrabíllinn í 32 mínútur á leiðinni kl. hálfellefu að morgni í engri umferð. Svo hef ég staðið hér og barist með oddi og egg fyrir því að reyna að koma á skárra sjúkrabílakerfi í litlum sveitarfélögum úti á landi þegar ég allt í einu átta mig á því að það er ekkert skárra hér. Hvað í veröldinni er í gangi? Ef viðkomandi sem hrundi þarna niður hefði verið eitthvað verulega tæpur á því þá væri hann náttúrlega löngu dauður. Það segir sig sjálft.

Það er í rauninni sama hvert litið er, menn státa af því að allt gangi svo vel og allt sé blómstrandi og allt sé svo frábært. Segið það við þá sem eiga bágt í landinu okkar í dag, segið það við þá sem eru hér að hokra og geta ekki veitt börnunum sínum það sem þau þrá mest. Segið það við þá, hættið að tala um hvað allt er frábært, bara af því að við höfum það gott núna. Ég þekki það af eigin reynslu hvernig er að lifa við það sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn skaffaði öryrkjum. Ég er ekki viss um að margir hér hafi staðið í þeim sporum. — Ég þarf að kíkja á klukkuna, það er nefnilega komið ljós í borðið og ég sé loksins á hana. En ég fæ að koma hérna aftur á eftir í þriðju umferð.

Kæru landsmenn. Flokkur fólksins er með lausnir og ég skal segja ykkur frá hinum málunum okkar á eftir og ég bið ykkur að fylgjast vel með því. Það er alveg á hreinu. Við erum ekki af baki dottin og við gefumst aldrei upp.