150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Alþingi kemur saman að nýju eftir starfsár sem var á margan hátt sögulegt og erfitt fyrir ásýnd og virðingu Alþingis. Ekki þarf að draga neina fjöður yfir að hér er ég að tala um Klaustursmálið og önnur mál sem komu til kasta siðanefndar Alþingis — en ekki síður umræður, eða ætti ég frekar að segja endalaust þvarg og rugl, um þriðja orkupakkann. Í þessum málum tókst þingmönnum að sýna á sér hlið sem kastar rýrð á þau mikilvægu störf sem hér eru unnin og grafa um leið undan nauðsynlegu trausti til Alþingis. Við landsmönnum blasti hryggðarmynd sem enginn á að sætta sig við, hvorki ég né þú. Við skulum ekki taka undir það sem Súkkat söng svo eftirminnilega.

Það er vont,

það er vont en það venst,

vont en það venst.

Herra forseti. Ég hlýddi á þrjár ræður í tilefni af þingsetningunni í gær og með leyfi forseta ætla ég að vitna til þeirra. Björg Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni á hugvekju Siðmenntar:

„Ættum við, sem land, að spyrja okkur að því hvernig áhrif við viljum hafa á heiminn, hvað við getum gefið heiminum — í stað þess að pæla í því hvað heimurinn getur gefið okkur?“

Kristinn Ágúst Friðfinnsson rifjaði upp í predikun í Dómkirkjunni viðtal við Stein Steinarr þar sem hann sagði að honum þætti stundum að hann væri í kaupstaðarferð en væri búinn að gleyma hvað hann ætti að kaupa. Kristinn hvatti okkur þingmenn til að rifja upp hvað það var nú aftur sem við áttum að kaupa í okkar kaupstaðarferð sem við erum að hefja núna í haust.

Forseti Íslands sagði í þessum sal:

„Óvissa er í raun annað orð yfir framtíð. Satt er það að varkárni er góðra gjalda verð. Við megum varast þá andvaralausu og þá kærulausu, það sanna dæmin, en við megum líka varast þá kvíðafullu, þá hræddu og þá reiðu. Þær stundir geta einmitt komið að við höfum ekkert að óttast nema þá óttaslegnu.“

Góðir landsmenn. Það er gott að fá svona áminningar og rétt að taka mark á þeim þegar við hefjum störf á nýju þingi. Rifjum upp hvaða erindi við eigum í pólitík. Við skulum takast á um markmið og leiðir en gætum þess að haga okkur eins og siðuðu fólki sæmir. Við skulum hugsa um þjóðarhag en við skulum ekki sinna eigin hégóma.

Mér er þess vegna hollt að minna mig á það að í kjarna sínum er Viðreisn frjálslyndur, alþjóðlega sinnaður flokkur sem byggir stefnu sína og störf á jafnrétti og hugmyndafræði frjálslyndis og vill þannig skapa réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir ganga framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki, njóta jafnræðis.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við í Viðreisn erum staðráðin í því að koma í veg fyrir að annað textabrot úr smiðju Súkkats verði að veruleika.

Jú, það er vont,

það er vont og það versnar,

vont og það versnar,

versnar og versnar,

versnar og versnar.