150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé alveg einnar messu virði og nokkurra að ræða innleiðingarferlið og við erum að tala um til þriggja ára. Við erum auðvitað að vinna eftir lögum um opinber fjármál, ég er sammála hv. þingmanni um það, en á það hefur verið bent að aðrar þjóðir sem hafa farið þessa leið hafi kannski gefið sér meira rými og kannski hefðum við átt að gera það fyrr í ferlinu. En þetta er svolítið oft íslenska leiðin, bara að setja þetta af stað og vinna eftir því. Að því leyti til erum við að fikra okkur áfram með þetta. En ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á þessu og vil bæta úr er að hluti af þessari vinnu, það sem við þurfum að efla, er mælaborðið sem við þurfum á hlutina, hvað við fáum fyrir peningana. Það tengist auðvitað endurmati útgjalda.

Hv. þingmaður kom inn á velsældarmælikvarða og ég vildi gjarnan spyrja hvernig hann sjái það fyrir sér í auknum mæli í fjárlagavinnunni.