150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurninguna um kirkjujarðasamkomulagið. Þetta er orðið ansi … (BLG: Vandræðalegt.) — Hv. þingmaður notar orðið vandræðalegt, þetta er alla vega seigdrepandi þótt ég segi að klippt hafi verið á þetta í kjölfar hruns en einhvern veginn hafa menn ekki náð saman um þetta. Ég segi nú bara: Semja, takk. Það þarf einmitt að fara yfir það í hverju samningarnir eru fólgnir, í hvað peningarnir munu fara og um hvað það snýst. Því miður höfum við ekki fyrirliggjandi nægar upplýsingar um það akkúrat á þessari stundu. Það verður að segjast eins og er, af því ég veit að hv. þingmaður talaði áðan í andsvari við hv. þingmann Steinunni Þóru Árnadóttur um hlutverk okkar í fjárlaganefnd og ábyrgð okkar gagnvart eftirliti og aðhaldi, að þetta mál er skýrt dæmi um það.