150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni er annt um kjör öryrkja og gerir þau að umtalsefni sínu og það er gott. Það er mikilvægt að öryrkjar hafi góða málsvara inni á þingi og það er því miður staðreynd að allt of margir í hópi örorkulífeyrisþega búa við fátækt. Það er ástand sem þarf að breyta og ég tel að þó svo að hér sé verið að bæta 3,5% við og þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar, til að mynda á krónu á móti krónu skerðingum á síðasta ári, þá séum við ekki búin þegar kemur að málaflokki öryrkja, þar þurfi að gera betur. Ég er sammála hv. þingmanni í því.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í það þegar hann talar um að ríkisbáknið sé sífellt að þenjast út, hvað hann eigi við með því. Í mínum huga er ríkisbáknið einmitt það að setja peninga í velferðarkerfið, setja peninga í að greiða til lífeyrisþega, í heilbrigðismálin, í málefni aldraðra, í samgöngur og menntamál. Hvernig fer það saman að vilja draga saman í ríkisrekstri en gera um leið betur við tiltekna hópa samfélagsins? Ég skil það sjónarmið að vilja gera betur við tiltekna hópa samfélagsins (Forseti hringir.) en ég sé ekki hvernig það fer saman við að draga úr umfangi ríkisins, því að það er einmitt það sem er svo mikilvægt í þessu.