150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:49]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er tvennt sem ég vildi í seinna andsvari mínu við ræðu hans taka upp. Í fyrsta lagi sú þingsályktun sem fylgdi afgreiðslu frumvarpsins sem oft var kallað frumvarp um hrátt kjöt. Ég hef velkst lengi í heimi landbúnaðarpólitíkur og ég ætla að leyfa mér að segja að sú þingsályktun og sú stefna sem hún markaði er líklega einhver mestu tíðindi sem hafa verið boðuð til breytinga fyrir umhverfi íslensks landbúnaðar í mjög langan tíma. Ég vil bara taka það fram að ég hef ekki í mjög langan tíma séð afgreidda frá Alþingi Íslendinga jafn metnaðarfulla áætlun eins og þar kom.

Í annan stað vil ég ræða sérstaklega um framlög til landbúnaðarins og þróun þeirra, sem ég veit að hv. þingmaður hefur stundum tekið upp og rætt. Lækkun framlaga sem er núna áberandi á milli fjárlaga og fjárlagafrumvarpa og nemur allverulegri fjárhæð ber líka að skoða í því ljósi að það var einfaldlega verið að leysa úr gömlum hnút þar sem voru eftirlaunaskuldbindingar í gömlu landbúnaðarkerfi sem urðu til hjá stofnun sem hét Búnaðarfélag Íslands og var hálfgildingsríkisstofnun þess tíma. Eftirlaunaskuldbindingar starfsmanna sem þar störfuðu og hjá fleiri stofnunum voru skildar eftir hjá Bændasamtökum Íslands. Það var margra ára baráttumál að fá einhverja hreinsun á þeim fjárhagslegum samskiptum ríkisins og samtaka bænda sem náðist á síðasta ári. Það skýrir að verulegu leyti lækkun þeirra framlaga sem birtast okkur núna í fjárlagafrumvarpi þessa árs og síðasta árs. (Forseti hringir.) Það er nefnilega ekki allt sem sýnist í þeim efnum og nauðsynlegt að við ræðum það opinskátt að við höfum lengi, í raun í mörg ár og áratugi, (Forseti hringir.) þurft að slást svolítið fyrir því að hreinsa upp gömul kerfi.