150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

útboð á sjúkraþjálfun.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en hún svaraði því samt ekki hvernig kvótaskiptingin á að vera. Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði sjúkraþjálfun á öllu höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ? Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði ekki bara þeir sem bjóða ódýrast hvernig gæðin verða?

Síðan er annað grafalvarlegt. Sjúkraþjálfarar fengu ekki nema örfáar vikur, fjórar eða fimm, til að svara þessu og það á að vera búið að skila inn fyrir 1. október, eftir hálfan mánuð. Af hverju gefum við þeim ekki lengri tíma til að setjast niður með ráðherra og fá svör? Þeir eru ítrekað búnir að biðja um svör frá Sjúkratryggingum Íslands, en fá engin svör, ekki eitt einasta tíst. Þeir eiga bara að gjöra svo vel að rjúka í eitthvert útboð sem þeir átta sig ekki á nokkurn hátt á hvernig eigi að fara fram.