150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi tími sé eitthvað óhentugur til að afnema þennan húsnæðislið eða fjarlægja hann út úr útreikningum. Ég ítreka þær tölur sem ég gat um, sem eru opinberar tölur og birtust í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá mér, um að á árabilinu 2012–2017 lagði húsnæðisliðurinn 118 milljarða ofan á húsnæðislánin en almennar verðlagsbreytingar í landinu höfðu þau áhrif að leggja 15 milljarða ofan á íbúðalán. Þessar tölur tala sínu máli en ég hef fullan skilning á því að þeir sem vilja halda í þetta kerfi telji að aldrei sé rétti tíminn til að hverfa frá því. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Þetta frumvarp felur í sér það sem ég leyfi mér að kalla tangarsókn að verðtryggingunni úr öllum fjórum höfuðáttum og það er sannarlega kominn tími til. Úr því að hv. þingmaður vísaði í umsagnir ætla ég að leyfa mér að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með það á síðasta þingi þegar þetta mál rataði til nefndar að umsögnin frá Seðlabankanum fól ekkert annað í sér en að endursenda eldri umsagnir. Þetta mál felur í sér ný sjónarmið og nýjar röksemdir sem ég tel að Seðlabankanum sé skylt að fjalla um málefnalega og með upplýstum hætti. Ég leyfi mér að vona að góðar og gagnlegar umsagnir berist um þetta mál. Þetta mál er gjörbreytt frá því sem var í fyrra, þessi fjögurra liða tangarsókn. Tveir liðirnir hafa fengið stuðning ríkisstjórnarinnar og þá er bara að sækja áfram varðandi framkvæmd þeirra (Forseti hringir.) og síðan að sækja fram varðandi hina tvo.