150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Fyrir skömmu birti Hagstofa Íslands ágæta greiningu á störfum á vinnumarkaði og hvernig þróunin hefur verið þar á undanförnum árum. Hið jákvæða í þessari greiningu, þrátt fyrir að við séum tímabundið að glíma við samdrátt á vinnumarkaði þessi dægrin, er að frá því á hrunári, 2008, hefur störfum á vinnumarkaði fjölgað um 30.000. Auðvitað endurspeglar það þann þrótt sem verið hefur í hagkerfinu á þessum tíma.

Það sem veldur mér hins vegar miklum áhyggjum er að á sama tíma hefur fjöldi starfa í hugverkagreinum staðið algjörlega í stað. Þetta eru atvinnugreinarnar sem við tölum fjálglega um í þessum sal að eigi að bera uppi framtíðina fyrir okkur. Við tölum reglubundið um fjórðu iðnbyltinguna og öll þau tækifæri sem í henni felast en á rúmum áratug hefur ekkert gerst í þessum geira hjá okkur. Þess sjást líka merki þegar við horfum á útflutningstekjur hugverkagreina. Þær hafa að sama skapi meira og minna staðið í stað í rúman áratug.

Það er alveg ljóst hvert vandamálið er, það er sá óstöðugleiki sem íslenska krónan skapar þessum atvinnugreinum. Við ættum kannski að hlusta á greinina sjálfa, m.a. góðan forvígismann úr hópi þessara fyrirtækja, Hjálmar Gíslason, sem talaði um það á morgunverðarfundi í vor á vegum Viðskiptaráðs að við ættum kannski að hætta að ritskoða sjálf okkar þegar við tölum um samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði sem krónan skapi íslensku atvinnulífi — og atvinnulífið kannski sérstaklega. Þar horfir maður sérstaklega til hagsmunasamtaka í atvinnulífinu sem ég myndi segja að vegna mikilla áhrifa sjávarútvegs og annarra greina sem eru andvíg upptöku nothæfs gjaldmiðils hér á landi hefðu algjörlega þagnað um þetta mikilvæga mál.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn, þingheim og efnahagslífið í heild þegar jafn mikilvæg atvinnugrein hefur algjörlega staðnað í röskan áratug. Þetta er týndur áratugur hugverkagreinanna (Forseti hringir.) og ég held að við hljótum að þurfa að skoða vandlega hvað veldur.