150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alls ekki á móti því að menn velti því fyrir sér hvernig þetta gæti komið út með öðrum skerðingarmörkum og annarri skerðingarprósentu. En ég hef áhyggjur af því almennt að eftir því sem við hækkum bæturnar meira og sýnum meiri viðleitni til þess að skilja þær eftir neðst í tekjustiganum þá kalli það á hærri skerðingarprósentu og að fyrir barnafjölskyldur almennt leiði það á endanum til hærri jaðarskatta, að ávinningurinn af því að bæta við sig 100.000 kr. í laun, t.d. með því að leggja á sig aukavinnu eða fá stöðuhækkun, mennta sig og skipta um starf o.s.frv., verði afskaplega lítill þegar upp er staðið vegna þess að fyrir viðkomandi barnafjölskyldu tapist svo mikið í barnabótum við hverjar 10.000 kr. sem heimilistekjurnar hækka um. Þarna er alltaf spurning um hvernig við stillum af hina réttu hvata og hvað er sanngjarnt og hvað ekki sanngjarnt.