150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

samráð um samgönguáætlun.

[11:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil í því sambandi fara aðeins yfir sögu þessa máls. Í vinnu við samgönguáætlun sem allir þingmenn hér í sal komu að — mest þeir sem sátu í umhverfis- og samgöngunefnd, og eftir því sem ég best veit sat fulltrúi hv. þingmanns og hans flokks þar og fylgdist náið með — hefur ferlið verið mjög opið og gegnsætt. Þar var rætt um að vilji væri til þess að setjast niður með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til að ná fram í fyrsta skipti heildarsýn á það hvað þyrfti til til að leysa umferðarhnútana og þau vandræði sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Slíkur hópur var settur á laggirnar í fyrrahaust. Við ræddum hann þó nokkrum sinnum í þessum þingsal. Allar þær upplýsingar hafa legið á borðinu. Í framhaldinu var síðan settur á laggirnar starfshópur skipaður sömu aðilum. Það vill svo til að í sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu sitja fulltrúar úr öllum flokkum og ég veit ekki annað en að innan allra flokka eigi menn eðlileg samskipti, ekki síst þingmenn viðkomandi kjördæma, við sína sveitarstjórnarmenn. Það hefur ekki verið lagður nokkur trúnaður á það að menn eigi sín eðlilegu samskipti þar um. Ég hef litið svo á að við séum að vinna þetta í eins opnu ferli og hægt er. Satt best að segja bauð sá sem hér stendur þingmönnum til kynningar fyrir nokkrum dögum. Fyrst þáðu menn það boð en síðan sáu menn að hægt var að búa til pólitískan leik um eitthvert samráðsleysi og tvíbókanir. Ég tók það á mig; ef allir þingmenn vildu frekar taka þátt í umræðu um tekjubandorm og slíkt var bara sjálfsagt mál að fresta þeim fundi. En það hefur ekki staðið á mér að kynna þetta mál (Forseti hringir.) fyrir hverjum sem er, þá vinnu sem er í gangi. Henni er ekki lokið. Hún er í gangi og það er ekkert óvænt við það.