150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

loftlagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

[12:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hér er ekki um að ræða mál sem við getum bara beðið af okkur. Það er líka auðheyrt að þingheimur er almennt á þeirri skoðun. Verkefnið er hins vegar ekki síst að breyta fallegum orðum í aðgerðir, fljótt og vel. Í riti Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem ber titilinn Á röngunni: Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt, sem gefið var út í sumar, er farið ítarlega yfir þá vankanta sem má finna á því hvernig landið okkar er nýtt í sauðfjárrækt. Það er talið að 10–20% fjárstofnins gangi á svæðum þar sem ástand og eðli vistkerfa standist ekki þau viðmið sem eru sett í tengslum við framkvæmd núverandi búvörulaga. Þeir sem eiga þessa gripi hafa fengið greiðslur úr ríkissjóði sem samræmast ekki ákvæðum laga þar um. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum segir, með leyfi forseta:

„Kolefnishlutleysi verður ekki náð nema með stóraukinni kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi og minni losun frá landnotkun. Þetta fer vel saman við rúmlega aldargamla opinbera viðleitni við að snúa við jarðvegseyðingu, græða upp auðnir og illa farið land og rækta skóg.“

Herra forseti. Ég er að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem stjórnvöldum er falið að gera á þessari framkvæmd á gæðastýringu í landnýtingu í sauðfjárrækt löngu tímabærar úrbætur. Þær úrbætur eru tímabærar fyrir þann mikla meiri hluta sauðfjárbænda sem uppfylla kröfur um ábyrga og sjálfbæra landnýtingu. Þetta eru tímabærar úrbætur fyrir neytendur sem telja sig hafa ríka ástæðu til að álíta sig vera að kaupa umhverfisvænar afurðir. Fyrst og síðast eru þetta löngu tímabærar úrbætur fyrir náttúruna.