150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það þarf varla að taka það fram að þar sem ég er einn af flutningsmönnum þessa máls er ég einnig eindreginn stuðningsmaður þess. Ég tel að það sé óskaplega mikilvægt að Alþingi hafi miklu meiri aðkomu að því sem er að gerast á öryggissvæðinu í Keflavík. Það hefur verið rakið hér, 1. flutningsmaður Kolbeinn Óttarsson Proppé gerði það, hvernig þetta snýst um orðinn hlut þar sem hæstv. utanríkisráðherra segir utanríkismálanefnd frá því sem þegar hefur verið ákveðið, m.a. með viðaukum við varnarsamninginn. Þetta gerir að verkum að það er óskaplega lítið hægt að gera í þeirri stöðu eftir á. Ég tel þess vegna að það skipti mjög miklu máli að fá þessa umræðu fram fyrr og að hægt sé að skiptast á skoðunum og jafnvel takast á um það hvort menn telji þær breytingar sem verið er að gera af hinu góða eða af hinu illa og færi þá rök fyrir því af hverju þeir telji annaðhvort vera rétt. Ég tel að þetta skipti ekki bara máli fyrir okkur sem störfum á Alþingi, að við höfum eitthvað um málin að segja, heldur snýst þetta líka um að umræðan færist nær almenningi í þessari ákvarðanatöku og almenningur geti fylgst betur með rökstuðningi okkar sem erum þeirra kjörnu fulltrúar þegar kemur að þessum málaflokki.

Ég er hjartanlega sammála því sem hefur verið bent á að hægt er að styðja þetta mál óháð afstöðunni til veru Íslands í NATO. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum verið gagnrýnd fyrir það að hernaðaruppbygging eigi sér stað á okkar vakt. Ég vil í því samhengi benda á að hér er verið að fylgja eftir ákvörðunum sem voru teknar árið 2016, ef ég man rétt. Þá sat ég einmitt í utanríkismálanefnd og ég mótmælti svo sannarlega því sem þá var búið að gera varðandi viðauka á varnarsamningnum og hefði mjög gjarnan viljað að fleiri hv. þingmenn hefðu tekið undir með mér en svo var ekki og allt í lagi með það, það var bara þannig. En ég held að umræðan hefði orðið talsvert mikið öðruvísi hefði hún farið fram hér í þingsal en ekki aðeins á fundi utanríkismálanefndar.

Frú forseti. Í þessari umræðu hefur verið bent á að blikur séu á lofti í alþjóðamálum og það er rétt og ég tel það enn og aftur vera rök fyrir því að þetta mál eigi að samþykkja. Þar sem blikur eru á lofti eigum við að ræða þessi mál meira og oftar hér í þingsal.

Einnig hefur verið komið inn á loftslagsmálin og talað um að þessi mál þurfi að ræða með tilliti til þeirra. Því er ég líka hjartanlega sammála. Mig langar að benda á að einmitt í skjóli þess að um hernaðarmál er að ræða, og það gildir ekki bara á Íslandi heldur gildir það alls staðar í heiminum, er gríðarlega erfitt að kalla fram upplýsingar um þá mengun sem af hernaði stafar. Þeir sem eru fylgjandi veru okkar í hernaðarbandalögum geta alveg rökstutt það og sagt að sá útblástur og sú mengun sem fylgir hernaði og öllu því sem er hernaðartengt sé nauðsynleg, það má færa rök fyrir því. En við höfum enga hugmynd um það hverjar þessar tölur eru og hversu mikil mengunin er. Ég hef til að mynda reynt að kalla eftir upplýsingum um hvað sé áætlað að útblástur eða mengun sé mikil vegna þeirrar loftrýmisgæslu sem á sér stað frá Keflavíkurflugvelli. Ég hef ekki getað fengið neinar tölur um það. Ólíkt því sem á sér stað í almennu flugi þar sem verið er að hanna flugvélar sem geta flogið sem lengst með sem sparneytnustum hætti er, þegar kemur að hernaði, verið að hanna flugvélar sem geta náð sem mestum krafti og komist sem lengst á sem stystum tíma og brenna gríðarlega miklu eldsneyti til að geta það. Um þetta er kannski minna talað og eins og ég sagði er gríðarlega erfitt að fá upplýsingar um það.

Ég tel þess vegna að þetta þingmál, sem snýst um að fá umræðuna inn í þingsal og að allar bókanir og viðbætur, breytingar sem eru gerðar á varnarsamningnum sem og þær breytingar sem eru gerðar á öryggissvæðinu, séu ræddar hér og styðji við það að kalla þessar upplýsingar fram. Þetta rímar algerlega við það sem hefur verið kallað eftir úr þessum sal, bara hér fyrr í dag í sérstakri umræðu um loftslagsmál, um að allt sem gert er sé rýnt með tilliti til loftslagsmála. Mér finnst að þetta mál megi tengja beint inn í þá umræðu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er vongóð um að sátt geti náðst um þetta mál á Alþingi og ég tel að samþykkt þess væri þjóðinni til mikilla heilla.